Verri leið ekki sparnaðarins virði
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 29. ágú 2022 19:47 • Uppfært 29. ágú 2022 21:54
Bæjarfulltrúar í Múlaþingi vara við því að áframhaldandi rifrildi um lagningu jarðganga á svæðinu geri ekkert nema fresta framkvæmdum. Þeir vara við því að hugmyndir um T-jarðgöng á svæðinu skili sér verr til framtíðar þótt kostnaður við þau í byrjun sé lægri en með hringtengingu þar sem byrjað verði á Fjarðarheiðargöngum.
Á síðasta fundi sveitarstjórnar var samþykkt bókun þar sem lögð var áhersla á að framkvæmdir við göngin hefist í samræmi við fyrirliggjandi samgönguáætlun. Fram kemur að með bókuninni sé sérstaklega brugðist við umræðu síðustu vikur um að Fjarðarheiðargöng séu ekki vænlegur kostur.
Í þeirri umræðu hefur verið talað um kostnað við göngin, sem á núverandi verðlagi er komin í 45 milljarða króna. Samkvæmt núgildandi áætlunum á ekki að láta staðar numið eftir Fjarðarheiðargöng heldur áfram og bora áfram til Seyðisfjarðar um Mjóafjörð. Á móti hefur verið bent á að T-göng, þar sem borað yrði úr Mjóafirði til Héraðs upp á Slenjudal, í stað þess að fara undir Fjarðarheiðina, séu ódýrari.
Í bókuninni er bent á að gangakostirnir séu bornir saman í nefnd á vegum samgönguráðherra sem skilaði af sér skýrslu árið 2019 sem ákvörðunin um Fjarðarheiðargangaleiðina byggir á. Þar er Fjarðarheiðargangaleiðin hafa betri samfélagsleg áhrif á Seyðisfjörð sem og Austurland allt. Með henni verði til hringleið án botnlanga fyrir utan styttingu leiða og haldið í möguleikann á að leggja hitaveitu frá Héraði til Seyðisfjarðar.
Á þessar niðurstöður minntu sveitarstjórnarfulltrúarnir í umræðum sínum á fundinum. „Þetta er ekki eingöngu fyrir Austfirðinga, Seyðfirðinga eða ferðafólk. Þetta er fyrsti verkþátturinn í hringtengingu Austurland, Íslendingum öllum til heilla,“ sagði Eyþór Stefánsson, fulltrúi Austurlistans.
„Mitt mat er að þeir sem berjast fyrir því að hringtengingin verði næsta jarðgangaverkefni séu að tefja málið. Ef beygt verður frá nú þá mun það tefja gangagerðina. Það er líka að mínu mat þvættingur hjá andstæðingum Fjarðarheiðarganga að ef þau koma verði ekki hringtenging. Það er ósanngjarnt að stilla þessu upp þannig að ein göngin útiloki önnur.“
Hringtengingin kom best út
Eyþór benti á að göng upp á Slenjudal komi út í um 200 metra hæð meðan Fjarðarheiðargöngin séu einum 100 metrum neðar. Hann vitnaði einnig til þess sem fram kemur í skýrslunni að með T-göngunum lengist leiðin frá Egilsstöðum til Seyðisfjarðar um 9 km frá því sem nú er, auk þess sem 3 km lengra sé að fara um T-göngin milli Egilsstaða og Neskaupstaðar eða Eskifjarðar samanborið við Fjarðarheiðargöngin.
Þegar starfshópur ráðherra skilaði sinni skýrslu árið 2019 var áætlaður kostnaður við hringtengingu með Fjarðarheiðargöngum áætlaður 64,3 milljarðar, þar af voru Fjarðarheiðargöngin um helmingur. T-göngin voru talin ellefu milljörðum ódýrari eða 83% af hringtengingunni. Eyþór viðurkenndi að ýmsar breytur gætu haft áhrif á endanlegan kostnað, svo sem aðstæður þegar á reyni í bergi en sagði að til mikils mætti vinna með ávinningi til lengri tíma.
„Mögulega er munurinn þarna á milli meiri en það þarf að vera æði mikill munur til að sannfæra mig um að fara verri leið. Ég vona að stjórnmálamennirnir hugsi til áratuga þannig við gefum ekki færi á að láta gagnrýna okkur fyrir að hafa lélegu ódýrari leiðina.“
Fordæmi fyrir að tengja saman fámenn byggðarlög
Eyþór vitnaði til þess að gagnrýnendur settu það fyrir sig að Fjarðarheiðargöngin verði 13,4 km, þar með þau fimmtu lengstu í Evrópu og þrettándu í heiminum, einkum í ljósi þess að innan við 700 íbúar séu á Seyðisfirði. Hann benti á að lengstu göng heims, í rúmlega 24 km göng í Lærdal í Noregi tengi saman byggðarlög með innan við 4000 íbúa samanlagt. St. Gotthart göngin í Sviss, sem orðin eru 40 ára gömul, tengi saman saman svæði með innan við 2000 byggðarlög.
Bæði göng þjóni hins vegar stærri tilgangi, líkt og Fjarðarheiðargöng sem þar með yrði hluti af vegtengingu Íslands við Evrópu í gegnum Norrænu. Norsku göngin eru á leiðinni milli Björgvin og Oslóar og hin milli norður- og suðurhluta svissnesku Alpanna. „Líkindin eru til staðar að tengja saman áþekka byggðakjarna og hér til að ná fram stærra markmiði.“
Slenjudalsgöngin yrðu til samanburðar um 9 km, álíka og Vestfjarðargöngin sem eru rétt neðan við 50. sæti heimslistans. Norðfjarðargöng eru næst lengst íslensku ganganna, 7,5 km. Þau eru rétt neðan við 100. sætið.
Göng mikilvæg fyrir sameiningar sveitarfélaga
Þótt ræða Eyþórs væri löng var hún síður en svo sú eina því tíu af ellefu sveitarstjórnarfulltrúum sem sátu fundinn komu upp undir þessum lið. Fyrst í röðinni var Jónína Brynjólfsdóttir, forseti sveitarstjórnar. Hún minnti á að göngin og nýr vegur yfir Öxi hefði verið meðal forsendna þess að Múlaþing varð til. „Ef við horfum til Fjarðabyggðar þá er mikilvægi Fáskrúðsfjarðar- og Norðfjarðarganga augljóst.“
Hún kom einnig inn á að núverandi leið yfir Fjarðarheiði, sem er 27 km löng og fer mest í 620 metra hæð, sé mikill farartálmi, einkum á veturna. „Íbúabyggð sem skilgreind er á ofanflóðahættusvæði er háð tryggum samgöngum.
Langur aðdragandi
Hún sagðist skilja að skjálfi færi um einhverja þegar nær drægi stórum og dýrum framkvæmdum. Mikilvægt væri þó að muna að ákvarðanatakan hefði átt sér stað yfir langt tímabil og ástæða væri fyrir að þessi niðurstaða fékkst.
Berglind Harpa Svavarsdóttir, formaður byggðaráðs, minnti á að austfirskt sveitastjórnarfólk hefði á sínum tíma fagnað skýrslunni frá 2019 og ítrekað ályktað að Fjarðarheiðargöng skyldu vera næst í röðinni. „Þessi framkvæmd dettur ekki úr loftinu heldur er búið að vinna mjög faglega vinnu.“
Eitt af því sem hlotið hefur gagnrýni er fyrirhuguð gjaldtaka í önnur jarðgöng hérlendis sem ætlað er að fjármagna bæði viðhald og nýframkvæmdir ganga til framtíðar. Berglind Harpa minnti á þessa staðreynd að gjaldtakan snérist ekki um Fjarðarheiðargöng ein, þau væru bara næst á dagskránni. Finna þyrfti sanngjarna lausn á gjaldtöku ríkisins með minnkandi eldsneytisgjaldi með tilkomu rafbíla.
Aðalumferðin milli Seyðisfjarðar og Héraðs
Hildur Þórisdóttir, oddviti Austurlistans, sagði máli snúast um byggðastefnu á Íslandi. „Þetta er stærra en samgöngur Seyðfirðinga, þetta snýst um byggðastefnu á Íslandi, hvort við ætlum að halda landsbyggðinni á lífi. Með þessu tengjum við saman byggðakjarna í rúmlega 5000 manna sveitarfélagi þannig til verði eitt atvinnu- og þjónustusvæði.“
„Samgöngur á landi hafa verið helsti óvinur okkar síðan Seyðisfjörður varð til. Rannsóknir benda til að 80% umferðar sæki til Héraðs. Á sumrin fara fleiri en 1000 bílar á dag yfir heiðina, fragt, ferðafólk og jafnvel fólk að sækja sér lífsnauðsynlega þjónustu. Sumarumferðin lengist þar sem ferðaþjónustan eflist en vetrarumferðin er þó aðeins 25% af sumarumferðinni,“ sagði Guðný Lára Guðrúnardóttir, Sjálfstæðisflokki sem býr á Seyðisfirði líkt og Hildur.
Hún minnti á mikilvægi Seyðisfjarðar og Austurlands fyrri þjóðarbúið. „20% af útflutningstekjum landsins koma frá Austurlandi. Það eru mikil tækifæri í höfninni á Seyðisfirði og því eru góðar samgöngur mikilvægar til að viðhalda og jafnvel auka þetta.“
Þriðji Seyðfirðingurinn í sveitastjórninni, Vilhjálmur Jónsson, minnti á að fleiri skýrslur en sú sem kom út árið 2019 hefðu sýnt fram á kosti Fjarðarheiðarganga. „Þetta er besti kosturinn. Við erum að velja mannvirki til langs tíma, það er eiginlega ekki réttlætanlegt að velja síðri kost í svona langtímafjárfestingu.“
Hissa á umræðunni
Ýmsir fulltrúar furðuðu sig á þeirri mikilli umræðu sem farið hefði af stað í júlímánuði. „Þetta er eins og í Covid þegar þúsundir sjálfskipaðra sérfræðinga í netheimum ætluðu að stofna árangrinum í hættu. Það má ekki verða. Þrátt fyrir þetta sóttu bara fimm um stöðu sóttvarnalæknis þegar til kom. Þessar raddir byggja ekki á ígrunduðum rökum eins og vinnuhópurinn,“ sagði Pétur Heimsson, fulltrúi Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs sem starfar sem læknir utan stjórnmálanna.
Þröstur Jónsson úr Miðflokknum sagði fjölbreytta umræðu mikilvæga í lýðræðissamfélagi, hversu góð sem rök þeirra sem taka til máls séu. Eins og stundum áður fari hún fullseint af stað, framkvæmdin sé í raun ákveðin. Hann vitnaði eins og fleiri til skýrslunnar frá 2019. „Fjarðarheiðargöngin og þau sem eiga að koma í framhaldinu eru langbesti samfélagslegi kosturinn. Það er löngu búið að slá af samgöng um Slenjudal.“
Alþjóðaflugvöllur og alþjóðahöfn
Eins og Guðný Lára minnti hann á mikilvægi betri vegar fyrri tenginguna við höfnina. „Ef vegurinn milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur er breikkaður, er það þá bara fyrir þá sem þar búa? Svarið er nei, hann er fyrir landsmenn alla. Hið sama gildir um Fjarðarheiðargöng sem er að verða ein aðal inn- og útflutningshöfn okkar til Evrópu því það er styttra að sigla þangað en suður fyrir.
Talandi um hvað framkvæmdin kostar á haus, hvað kostar Sundahöfn á hvern íbúa Reykjavíkur? Við erum að tengja hér eitt stóru samgöngumannvirkjanna okkar, síðan er bónus að íbúarnir fá betri vegtengingu.
Það eiga allir að fagna því að verið sé að byggja upp atvinnulíf og innviði annars staðar en á suðvesturhorninu. Það vill enginn að landið sporðreisist á suðurhorninu. Þetta er þjóðhagslega hagkvæmt.
Við erum ekki bara að horfa á höfnina heldur líka flugvöllinn á Egilsstöðum. Til verður ein stysta vegalengd nánast á heimsvísu milli alþjóðahafnar og alþjóðaflugvallar sem gefur einstakt tækifæri á atvinnuuppbyggingu. Það er algengt í ýmsu framleiðsluferli að hrávörur komi skipaleiðina en fari út flugleiðis sem hátæknifara. Það hefur klikkað í sveitarstjórn Múlaþing að undirbúa göngin með öflugu aðalskipulagi á Egilsstöðum og tryggja að leiðin milli flugvallarins og hafnarinnar verði sem styst.“
Tækifæri fyrir Austurland og Ísland
Helgi Hlynur Ásgrímsson, oddviti VG, kom eins og fleiri inn á að göngin væru til að styrkja Austurland og landið allt til framtíðar. „Það er eðlilegt að þau 80% landsmanna sem búa á suðvesturhorninu sjái þetta fyrir sér sem eitthvað mikið og stýrt en ef við viljum ekki vera borgríki með eldgos innan borgarmarkanna þurfum við að huga að því að byggja upp úti á landi. Vissulega má gagnrýna upphæðina en ef vel er að göngunum staðið og þau höfð niðri við sjávarmál er afskriftatími þeirra 150-200 ár.
Við vitum að Austurland verður eitt sveitarfélag innan skamms tíma og þetta er eina gangaleiðin sem tryggir samgöng allan veturinn alltaf. Þegar við erum komin með samtengingu um firðina erum við orðin með eitt svæði og getum spýtt í og fjölgað íbúum.“
Helgi Hlynur sem fleiri fulltrúar kölluðu eftir viðbrögðum frá þingmönnum kjördæmisins. „Þeir mættu gjarnan stíga upp og segja eitthvað um málið.“
Mynd: Vegagerðin
Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var misritað að styttra væri að fara um T-göngin milli Egilsstaða og Norðfjarðar/Eskifjarðar. Samkvæmt skýrslunni frá 2019 er 3 km styttra um Fjarðarheiðargöngin.