Viðbúið að áfram verði raskanir næstu daga

Viðbúið er að áfram verði seinkanir á áætlunarflugi Icelandair innanlands. Önnur af stærri vélum félagsins getur ekki flogið vegna tæknilegra vandamála. Félagið heitir úrbótum á upplýsingagjöf til farþega næstu daga.

Eins og Austurfrétt hefur greint frá hafa gríðarlegar tafir orðið á innanlandsflugi síðustu vikuna vegna bilana í þeim vélum Icelandair sem sinna innanlandsfluginu auk Grænlands. Þær eru fimm talsins, annars vegar þrjár Bombardier Q200 sem taka 38 farþega, hins vegar tvær Q400 sem taka 76 farþega hvor.

Í gærmorgunn voru báðar stóru vélarnar í vandræðum en önnur þeirra, TF-FXI, komst í gagnið eftir hádegi í gær. Hún reynir að sinna áætlun fyrir þær báðar meðan TF-FXA er kyrrsett vegna tæknilegra vandamála.

Þær upplýsingar fengust hjá Icelandair í morgun að von væri á henni inn í loftið í næstu viku en ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær. Þar til má búast við töfum á flugum.

Tvær af fimm til taks í gær

Ein minni vélanna þriggja hefur síðustu þrjár vikurnar verið erlendis vegna reglubundins viðhalds. Það hefur tafist. Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, segir ástæður tafanna meðal annars vera brestir í aðfangakeðjum á heimsvísu í kjölfar Covid-faraldursins. Nú er reiknað með henni í flug á ný um miðjan júlí.

Að auki hefur önnur af minni vélunum ekki flogið síðustu tvo daga en á nú að vera tilbúin í loftið á ný. Þetta þýddi að í gær og í morgun voru aðeins tvær af fimm innanlandsvélum Icelandair til taks. „Þegar allar verðar komnar skapast bæði stöðugleiki í áætlunum og sveigjanleiki til að bregðast við ef eitthvað kemur upp á,“ segir Ásdís Ýr.

Bæta upplýsingagjöf

Hún segir Icelandair kappkost að koma öllum farþegum á sín áfangastaði að innan sama dags þótt það verði seinkunnir og forðast í lengstu lög að aflýsa flugum. „Við skiljum að fólk treysti á ákveðna flugtíma en ég get fullvissað fólk um að okkar starfsfólk vinnur hörðum höndum að því að láta þetta allt ganga, á sama tíma og það tekst við erfiðar og ófyrirséðar aðstæður.“

Ofan í seinkanirnar hefur flugfélagið sætt gagnrýni fyrir stopula upplýsingagjöf. Farþegar hafa til dæmis gagnrýnt að hafa fengið misvísandi skilaboð um flug sín og í verstu tilfellunum hafa boð borist svo seint að farþegar hafa misst af flugi.

„Við hlustum og fylgjumst með því viðskiptavinir okkar hafa að segja og erum að vinna í að bæta hana. Við leggjum okkur fram um góða upplýsingagjöf,“ segir Ásdís Ýr.

Aðspurð kvaðst hún ekki geta gefið nánari upplýsingar um fyrirkomulag flugsins næstu daga. Í morgun var TF-FXI fyrst send til Akureyrar samkvæmt áætlun en síðan ætlað að fljúga austur miðað við seinkunn. Eins var í gær fengin Boeing-þota frá félaginu til að koma öllum á áfangastað. „Það verður að minnsta kosti ekki þota í dag. Framhaldið verður síðan að koma í ljós,“ svaraði Ásdís er hún var innt eftir því hvort þoturnar yrðu notaðar til að létta undir með millilandafluginu. 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.