Viðbúið að stórgos myndi setja samgöngur á Austurlandi úr skorðum
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 03. nóv 2022 11:38 • Uppfært 03. nóv 2022 11:39
Stórt eldgos í Kötlu, Öræfajökli eða Öskju gæti raskað samgöngum við Austurland jafnvel svo vikum skiptir. Eldgosafræðingar fylgjast líka náið með hreyfingum jarðstöðvakerfa á suðvesturhorni landsins en segja ómögulegt að segja til um framtíðina.
Þetta er meðal þess sem lesa má út úr umfjöllun Iceland Review um Gosvá, samstarfsverkefnis sem komið var á árið 2012 milli Jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og Veðurstofu Íslands til að safna upplýsingum um virkar eldstöðvar hérlendis og eiginleika þeirra.
Þótt allra síðustu eldgos hafi ekki valdið miklum röskunum þá stafar af þeim margvísleg hætta, aska, hraun og gas en ekki síst jökulhlaup. Allt þetta getur haft áhrif á innviði og líf fólks.
Í umfjöllun tímaritsins er kastljósinu mikið beint að nýafstöðnum jarðeldum á Reykjanesi. „Við litum hvert á annað og vissum að það yrði eldgos,“ er haft eftir dr. Söru Barsotti, samhæfingarstjóra eldgosavár hjá Veðurstofu Íslands um viðbrögð vísindafólks við jarðskjálfta upp á 5,7 á Richter sem varð á Reykjanesi 24. febrúar. Gosið hófst mánuði síðar.
Hún segir vísindafólkið hafa talið mestar líkur á hraungosi, eins og raunin varð en einnig hafi verið hugað að öskugosi úr sjó. Slíkt hafi síðast orðið í jarðhitakerfinu í Svartsengi árið 1216. Í kjölfar stóra skjálftans hafi jarðvísindafólkið farið að hugsa um hvað gæti í versta falli gerst. „Alþjóðaflugvöllurinn í Keflavík er ekki langt frá, öskuský yrði komið yfir hann nokkrum mínútum eftir að gos hæfist og vindurinn gæti staðið á Keflavík og Reykjavík,“ segir Sara.
Austurfrétt hefur áður fjallað um áhyggjur fleira jarðvísindafólks um áhrif eldgoss á Reykjanesi á flugvöllinn í Keflavík og þörfina á að aðrir flugvellir, einkum á Egilsstöðum, geti hlaupið undir bagga.
Stórgos í Öræfajökli myndi valda verulegum vandræðum
En sá völlur er ekki laus við hættuna af eldgosum frekar en Austfirðingar, þótt eldfjöll svæðisins teljist vart virk lengur. Í skýrslum Gosvár má finna mat á hættu af eldgosum í Öskju, Öræfajökli og Kötlu sem mikil áhrif gætu haft eystra.
Í umfjöllun Iceland Review er vísað til þess að athuganir Gosvár á gosinu í Öræfajökli árið 1326 hafi sýnt fram á að slíkt gos gæti valdið skammhlaupum í raflínum á 115 km svæði. Aska úr slíku gosi gæti sest á vegi frá Kirkjubæjarklaustri austur á Seyðisfjörð. Taldar eru 75-100% líkur að yfir 3 mm aska berist á Austurland. Við slíkar kringumstæður verður skyggni nær ekkert og vegir ófærir.
Í gagnasafni Gosvár er að finna tvær skýrslur, annars vegar frá 2018, hins vegar 2020, þar sem fjallað erum þau eldstöðvakerfi sem líklegust eru til að hafa mest áhrif á Austurland. Hluti af vinnu Gosvár hefur verið að taka saman gögn um fyrri eldgos, meðal annars síðasta sprengigos í Öskju sem varð árið 1875. Þykk aska úr því dreifðist víða um Austurland og hafði mikil áhrif. Nokkuð hefur verið fylgst með því eldstöðvakerfi síðustu misseri. Að undanförnu hefur verið þar mikil jarðskjálftahrina. Samkvæmt gögnum Veðurstofunnar hafa í nágrenninu mælst rúmlega 250 skjálftar síðastliðna tvo sólarhringa, langflestir skammt norður af Herðubreið. Flestir eru litlir, þeir stærstu upp á 2,7 voru í nótt og morgun.
Í skýrslunni frá 2020 voru líkleg áhrif gosa í Kötlu, Öræfajökli og Heklu skoðuð sérstaklega. Mesta hættan af Kötlu er talin stafa af jökulhlaupum sem myndu stórskemma vegi á Suðurlandi. Þekkt er að gos í Kötlu geta staðið svo vikum skiptir.
Um gos úr Öræfajökli segir, eins og áður kom fram, að viðbúið sé að flutningskerfi rafmagns verði fyrir miklum áhrifum á meðan gosi stendur og eftir það. Helmingslíkur eru taldar á að flugvöllurinn á Egilsstöðum lokist og samgöngur við Austurland gætu orðið erfiðar, jafnvel hættulegar, fyrst eftir að gosið hæfist. Sá tími gæti teygst í daga og jafnvel vikur. Austurlandi virðist hins vegar almennt lítil hætta búin af Heklugosi.
Íslendingar hafa lagt í mikla vinnu við að reyna að meta líkurnar á eldgosum. Það er samt erfitt, 80 mínútna aðdragandi varð að síðasta Heklugosi árið 2000. Jarðvísindafólkið sem rætt er við í Iceland Review svarar spurningu um hvort hætta sé á eldgosum við Reykjavík að véfréttin í Delfí geti allt eins svarað því. Eins segi hegðun fólks á tvítugsaldri lítið um hvernig það komi fram sem gamalmenni þótt reynt sé að safna gögnum um fyrri gos, sem sé það eina sem hægt sé að gera til að meta framtíðina að einhverju leyti.