Skip to main content

Vildu kaupa „leikmuni“ Skógræktarinnar á sýningunni

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 18. okt 2022 17:46Uppfært 18. okt 2022 17:51

Stöðugur straumur fólks var að bás Skógræktarinnar á stórsýningunni Íslenskum landbúnaði 2022 sem haldin var í Laugardalshöll í Reykjavík um síðustu helgi. Básinn vakti almenna hrifningu og var mikill áhugi að kaupa tré og aðra „leikmuni“ í básnum.

Þetta kemur fram á vefsíðu Skógræktarinnar. Þar segir að bás Skógræktarinnar var settur upp að hætti skógræktarfólks sem eins konar skógarlundur þar sem fram fór skógarganga með ketilkaffi og náðist þar upp skemmtileg skógarstemmning.

„Í boði var brjóstsykur með greni, lerki og birkibragði sem vakti mikla lukku og fjöldi fólks tók sér einblöðunga með upplýsingum um þjóðskóga, kolefnismál, fyrstu skrefin í skógrækt og nýja landsáætlun í skógrækt og landgræðslu, Land og líf,“ segir á vefsíðunni.

Þá segir að Skógarbingó fyrir börnin vakti líka áhuga og margir þáðu birkifræ í umslag með leiðbeiningum um söfnun og sáningu. Mikið var um ýmiss konar fyrirspurnir og gestir í básnum voru almennt mjög áhugasamir um ýmsa þætti skógræktar og jákvæðar umræður sköpuðust. Stöðugur straumur fólks var í básinn og engar dauðar stundir.

„Skógræktin þakkar öllum gestum sem stöldruðu við í básnum fyrir komuna og sömuleiðis öllu því starfsfólki sem tók þátt í að undirbúa þátttöku stofnunarinnar í sýningunni, setja upp básinn, standa þar vaktir og ganga frá að sýningu lokinni. Skógarafurðum,“ segir einnig.

Mynd: Helena Marta Stefánsdóttir, sérfræðingur og skógræktarráðgjafi, tekur á móti fjölskyldu í bás Skógræktarinnar og börnin fá skógarbingó. Ljósmynd: Pétur Halldórsson