Skip to main content

Vilja aðstoð nema úr HÍ vegna framtíðar Íslenska stríðsminjasafnsins

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 08. sep 2022 14:11Uppfært 08. sep 2022 14:13

„Við höfum áður fengið nema úr safnadeildinni til okkar með góðum árangri og fengið þaðan aldeilis ágætar hugmyndir,“ segir Pétur Þór Sörensson, forstöðumaður Safnastofnunar Fjarðabyggðar.

Stjórn menningarstofu- og safnastofnunar hjá sveitarfélaginu hefur falið Pétri að kanna möguleikana á að nemar við safnafræðabraut við Háskóla Íslands verði boðið í heimsókn til Fjarðabyggðar með vorinu til að leggja meðal annars mat á þá valkosti sem fram koma í minniblaði starfshóps um framtíð Íslenska stríðsminjasafnsins á Reyðarfirði.

Sem kunnugir vita starfar nú sérstakur starfshópur við að finna lausnir á framtíð safnsins en sveitarfélagið keypti í vetur mikinn fjölda muna sem vel sóma sér þar nema gallinn sá að ekkert er plássið. Hafa ýmsar lausnir verið nefndar í því sambandi eins og Austurfrétt hefur meðal annars fjallað um hér.

„Nemarnir hafa komið hingað þrisvar áður í svona nokkurs konar vinnuferðir fyrir tilstuðlan Sigurjóns B. Hafsteinssonar, deildarstjóra í safnadeild Háskóla Íslands. Hóparnir hafa skilað af sér skýrslu í hvert sinn sem hafa nýst okkur vel enda alltaf gott að fá utanaðkomandi álit á hlutunum. Þetta hefur alltaf verið okkur afar gagnlegt enda er þar velt upp ýmsum möguleikum í stöðinni til framtíðar.“

Aðspurður segir Pétur ekkert eitt standa upp úr í vinnu starfshópsins hingað til. Ýmsar hugmyndir hafa verið ræddar og skoðaðar en framtíðin verði að leiða í ljós hvað verði á endanum.

Stríðsárasafnið á Reyðarfirði á mikinn fjölda muna sem ekki komast á stall sökum plássleysis. Nú skal leita álits safnadeildar HÍ á hvaða lausnir séu hugsanlegar til framtíðar.