Skip to main content

Vilja kanna möguleikann á ylströnd við Djúpavog

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 31. ágú 2022 07:03Uppfært 31. ágú 2022 07:04

Hópur áhugafólks á Djúpavogi hefur farið þess á leit við sveitarfélagið Múlaþing að kanna möguleikann á koma upp ylströnd eða baðstað við Búlandshöfn með heitu vatni af svæðinu. Þar hefur á undanförnum árum byggst upp baðstaður sem ferðafólk er farið að taka eftir.


„Þarna kom upp heitt vatn fyrir um áratug þegar verið var að leita. Fljótlega var farið með fiskikör á svæðið og látið renna í þau. Áhugafólk fékk svo gefins ostakar hjá MS, ryðfrítt og einangrað, sem sótt var upp í Egilsstaði og komið þarna fyrir.

Síðar var komið þarna upp smá baðaðstöðu. Þarna hefur síðan sírennsli á stað sem lítið er hugsað upp. Meðan bara heimafólk og einstaka ferðamaður vissu af svæðinu var þetta mjög kósí en internetið sér til þess að það eru engin leyndarmál lengur. Núna er aðsóknin orðin slík að annað hvort þarf að skrúfa fyrir eða gera eitthvað,“ segir Eiður Ragnarsson, fulltrúi sveitarstjóra Múlaþings á Djúpavogi.

Kanna áhugann á að taka málið lengra

Hópur áhugafólks á Djúpavogi sendi í síðustu viku erindi til Múlaþings sem samkvæmt bókun í fundargerð umhverfis- og framkvæmdaráðs er fyrir hönd óstofnaðs félags um uppbyggingu ylstrandar við Búlandshöfn í Hamarsfirði.

„Þessi hugmynd um hvort hægt sé að koma upp aðstöðu í ætt við Jarðböðin eða Vök annað hvort við Búlandshöfnina eða rétt innan við hefur blundað í morgun. Þetta hefur verið rætt manna á milli og ýmsu kastað fram áður en ákveðið var að fá úr því skorið hvort þetta væri möguleiki. Erindið er því beiðni um samtal um hvort fýsilegt sé að vinna þetta áfram.“

Í fyrra fékk sveitarfélagið styrk upp á 3,4 milljónir króna úr Framkvæmdasjóði ferðamannastaða til að bæta aðstöðuna, sem gengur undir heitinu Djúpavogskörin og er á landi sveitarfélagsins á Búlandsnesi. Nýta átti hana til að gera deiliskipulag. Að sögn Eiðs hefur sú vinna ekki enn farið af stað. Samkvæmt verklýsingu átti á síðari stigum að fara í hönnun sem svo leiði af sér framkvæmdir sem leiði af sér verndun náttúru og öryggi gesta, svo sem gerð stíga og salernisaðstöðu.

Spurning um vatnsmagnið

Eiður segir að aðsókn hafi verið góð í körin undanfarin misseri, þótt fáir hafi sótt þau í sumar. Ekkert heitt vatn hefur verið afgangs þar sem HEF veitur hafa verið með áframhaldandi boranir eftir heitu vatni. Fram kemur í fundargerðum HEF veitna að tilraunadæling hafi verið á svæðinu í sumar. Næst þurfi að kanna betur samgang milli borhola. Til stendur að halda rannsóknum áfram í september.

Jónína Brynjólfsdóttir, formaður umhverfis- og framkvæmdaráðs, segir áhuga á erindi Djúpavogsfólks. Fyrst þurfi þó að liggja fyrir niðurstöðurnar úr rannsóknum HEF til að vita hvort vatn sé aflögu á svæðinu ef lögð yrði hitaveita á Djúpavog, sem sé fyrsti kosturinn. „Það verður skoðað hjá okkur hvaða möguleikar eru á svæðinu og samstarfi við heimafólk.“

Búlandshöfn er um 1 km fyrir innan þorpið á Djúpavogi. Eiður segir að aðstæður þar séu ákjósanlegar fyrir bæði sjósund og baðaðstöðu. „Það er straumur úti í Hamarsfirðinum en víkin er aðeins inn úr. Á henni er aldrei nein hreyfing og því hættulaus. Trillusjómenn frá Djúpavogi geymdu gjarnan trillur sínar þarna við ból. Ég man eftir því sem krakki þótt það hafi ekki verið í seinni tíð. Þarna er fallegt og friðsælt og síðan spillir útsýnið inn Hamarsfjörðinn ekki fyrir. Þarna er því flottur staður fyrir eitthvað í þessa átt,“ segir Eiður að lokum.

Djúpavogskörin. Mynd: East.is