Vilja koma á fót matvælakjarna á Vopnafirði
„Við erum auðvitað stór atvinnurekandi á Vopnafirði, við höfum tekið þessum hugmyndum fagnandi og viljum gjarnan vinna með samfélaginu þarna og hagsmunaaðilum að forgangi þessa máls,“ segir Sveinn Margeirsson, framkvæmdastjóri nýsköpunar og loftslagsmála hjá sjávarútvegsfyrirtækinu Brim.
Drög að viljayfirlýsingu um stofnun sérstaks matvælakjarna á Vopnafirði hafa verið lögð fyrir sveitarstjórn en að henni standa sjávarútvegsfyrirtækið Brim auk Umhverfis- og loftlagsráðuneytisins. Meginhugmyndin að nýta ýmis þau tækifæri sem finnast í sveitarfélaginu til fullvinnslu sjávarútvegsafurða og annarra afurða af svæðinu öllum til hagsbóta.
„Ég vil taka skýrt fram að það er ekki búið að skrifa undir viljayfirlýsinguna en í grunninn snýst þetta um að auka virði okkar afurða og hugsanlega annarra matvælaframleiðenda á svæðinu með aukinni fullvinnslu hérlendis. Slík starfsemi myndi jafnframt falla vel að þeirri sýn íslenskra stjórnvalda að færa þróun og nýsköpun nær auðlindunum. Með öðrum orðum að matvæli séu framleidd og unnin í nærumhverfinu. Slíkt er einnig stórt atriði hvað varðar loftslagsmálin.“
Sveinn segir að allar undirstöður séu til staðar til að slíkt verkefni nái fram að ganga og gagnist samfélaginu öllu í bænum og nágrenni. Uppgangur sé á svæðinu öllu hvert sem litið sé og tækifæri sannarlega til staðar.
„Að því gefnu að viljayfirlýsingin fáist samþykkt þá eru næsta skrefin að taka samtalið við alla þá sem hefðu áhuga að taka þátt í slíku verkefni. Síðan færi af stað vinna við að skipuleggja með hvaða hætti þetta yrði að veruleika og við hjá Brim sannarlega spenntir fyrir slíku samstarfi.“