Skip to main content

Vill íhugunarstað í fjöruborðinu við Djúpavog

FréttirThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 22. ágú 2022 15:03Uppfært 22. ágú 2022 15:05

„Hugmyndin til að byrja með er að setja niður steina í sjávarborðinu og fólk geti lagt af stað með spurningar um lífið og tilveruna, staldrað við í miðjunni til íhugunar og hugsanlega komið út með einhver svör við lífsins gátum,“ segir Þórdís Sævarsdóttir, aðstoðarskólastjóri á Djúpavogi.

Þórdís lagði nýlega fram ósk til heimastjórnar bæjarins um afnot af sérstakri landspildu undir íhugunarstað fyrir bæjarbúa og gesti og tók heimastjórn vel í þær hugmyndir enda gerir Djúpavogsbær út á að vera hæglætisbær, Cittaslow, þar sem allt gott undir sólinni tekur tímann sinn og á að gera það.

Þórdís segir að hugmyndin hafi komið þegar vinkona hennar, Arnbjörg Kristín Konráðsdóttir, var í heimsókn en Arnbjörg, sem kennir bæði jóga og gong-slökun, hefur mikla reynslu af völundarhúsaíhugun erlendis.

Þórdís segir að fyrirmyndin séu völundarhús þau er víða finnist erlendis en þvert á það sem margir halda að þau hafi aðeins verið til afþreyingar og skemmtana, er raunin sú að slík völundarhús voru mestmegnis gerð til íhugunar. Fólk þurfi að rata að miðjunni, sest þar niður til að hugsa um hlutina, og finni sér svo leið út aftur vonandi öllu nær markmiði sínu en áður.

Hugmyndin stemmir mætavel við áherslur bæjarsins að vera hæglætisbær segir Eiður Ragnarsson, starfsmaður heimastjórnar Djúpavogs. Framundan sé samtal við Þórdísi um hvernig þetta megi verða að veruleika.

Völundarfjöruhús í Frakklandi sem er svipað og Þórdís Sævarsdóttir vill láta setja upp í fjöruborðinu við Djúpavog. Mynd Flickr/JackDorsey