Vonast til að falla betur í hópinn eftir að hafa fengið nýjan veg
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 13. okt 2022 11:07 • Uppfært 13. okt 2022 11:08
Bundið slitlag er nú komið á allan veginn frá Egilsstöðum til Borgarfjarðar eftir að lagt var á tæplega 15 km kafla utan við Eiða nýverið. Borgfirðingar fagna því hve hratt hafi gengið að byggja upp veginn síðustu ár.
Á íbúaþingi, sem markaði upphaf verkefnis brothættra byggða á Borgarfirði í febrúar 2018, voru samgöngumálin sett í forgang. Örfáum dögum síðar efndu Borgfirðingar til gjörnings í Njarðvíkurskriðum þar sem þeir steyptu fyrsta spottann í veginum.
Ekki löngu síðar var ráðist í að laga veginn um skriðurnar og klæða hann en ekki látið staðar numið heldur haldið áfram og klætt yfir Vatnsskarðið. Áður fyrr var áður klætt frá Egilsstöðum í Eiða en síðan frá Laufási í Hjaltastaðaþinghá að ysta bænum Unaósi.
„Það er magnað hvað þetta hefur gerst á stuttum tíma. Við fórum af stað til að berjast fyrir að fá skriðurnar klæddar, síðan hefur þetta gerst fáránlega hratt. Við vorum með hugmyndir um endurbætur á veginum frá Eiðum en þær urðu mun veglegri en við reiknuðum með.
Það er búið að taka af blindhæðirnar svo nú er þetta orðinn beinn og breiður vegur, hálfgerð hraðbraut,“ segir Eyþór Stefánsson, íbúi á Borgarfirði og fulltrúi í sveitarstjórn Múlaþings.
Allt lagst á eitt
Þegar Múlaþing varð til með sameiningu Fljótsdalshéraðs, Borgarfjarðarhrepps, Djúpavogshrepps og Seyðisfjarðarkaupstaðar voru um leið gefin fyrirheit um að ráðist yrði í samgöngubætur milli byggðakjarnanna.
Eyþór rifjar upp að eftir framkvæmdirnar í Njarðvíkurskriðum hafi aðrir kaflar Borgarfjarðarvegar komist inn á samgönguáætlun en því hafi Borgfirðingum brugðið nokkuð þegar uppfærð samgönguáætlun birtist um það leyti sem Múlaþing var að myndast þar sem lokahnykknum veginum hafði verið frestað um ár. „Síðan vorum við svo „heppin“ að það kom Covid og þá var þessum kafla aftur flýtt um ár. Þannig við höfum ýmsu að þakka,“ segir hann.
Raunhæfara að sækja vinnu upp í Hérað
Hann segir vegbæturnar muna miklu fyrir Borgfirðinga. „Nú höfum við loks veg sem tengir okkur almennilega við Egilsstaði og því hægt að tala um að þetta sé eitt atvinnusóknarsvæði. Það er þó nokkuð af fólki héðan sem vinnur á Egilsstöðum og öfugt.
Þetta getur stytt aksturstímann um nokkrar mínútur en stærsti munurinn í daglegu lífi Borgfirðinga verður ef til vill að þurfa ekki að endalaust að þrífa bílana á sumrin eða þegar vegurinn er blautur. Ég hef oft fengið að heyra það uppi á Héraði að bílar Borgfirðinganna þekkist á götunum því þeir eru svo drullugir. Nú ættum við að geta fallið í hópinn. Þetta fer líka betur með bílana. Borgfirðingar tala um hvað það hafi munað miklu fyrir ökutækin þegar vegurinn yfir Héraðssand var klæddur.“
Þarf að bæta vetrarþjónustuna
En þótt klæðningin sé komin halda Borgfirðingar áfram að þrýsta á um samgöngubætur. Næsta skref er bætt vetrarþjónustan, sem Eyþór segir síðustu hindrunina í að raunhæft sé að búa á Borgarfirði en vinna á Héraði.
„Vatnsskarðið er ekki opnað á laugardögum. Það er ekki bara óþolandi fyrri öryggi íbúana að mega ekki lenda í neinu á laugardag heldur líka uppbygging atvinnu á borð við ferðaþjónustuna, sem er sú grein sem hraðast hefur vaxið hér. Aðilar hér reyna að lengja tímabilið með viðburðahaldi sem einkum er um helgar en þeir eru eiginlega dæmdir úr leik meðan þjónustan er ekki meiri.
Aðra daga getur það valdið vanda hve seint er opnað og hve stutt er opið. Það er miðað við að opið sé milli 9 og 17. Það þýðir að ef það snjóar er Borgfirðingurinn vart komin í Egilsstaði fyrr en klukkan tíu og þarf að fara úr vinnu kl 16 þannig að vinnudagurinn er orðinn stuttur.“