Vonir um nýjan rekstraraðila í Fellabæ
Fréttir • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 07. júl 2022 14:44 • Uppfært 07. júl 2022 15:02
Vonir standa til að nýr aðili taki við rekstri þjónustustöðvar Olís í Fellabæ í haust. Olísmerkið hverfur þá af bæði stöðinni og eldsneytisdælunum en þær verða framvegis undir merkjum ÓB.
„Viðræður við nýjan rekstraraðila eru á góðum stað og við vonumst til að geta tilkynnt um hann á næstu vikum,“ segir Frosti Ólafsson, framkvæmdastjóri Olís.
Í byrjun vikunnar var tilkynnt um að þremur þjónustustöðvum Olís, á Skagaströnd, Ólafsfirði og Fellabæ, yrði um miðjan september breytt í ÓB sjálfsafgreiðslustöðvar. Í yfirlýsingu frá félaginu segir að til framtíðar hafi félagið trú á að útvíkka þjónustu- og vöruframboð þjónustumiðstöðva í takt við breyttar kröfur viðskipavina.
Þetta þýðir að þjónustumiðstöðvunum verður fækkað, sumar stækkaðar en einhverjum breytt í sjálfsafgreiðslustöðvar sem aftur eigi að leiða af sér hagstæðara eldsneytisverð.
Í tilkynningunni segir að reynt verði að lágmarka áhrif breytinganna á nærsamfélög stöðvanna auk þess sem leitast verði við að bjóða fastráðnu starfsfólki störf hjá Olís eða tengdum aðilum. Tveir fastráðnir starfsmenn eru á stöðinni í Fellabæ í dag.
Í samtali við Austurfrétt sagði Frosti að endurbætur yrðu gerðar á húsnæðinu í Fellabæ og umfang rekstrarins útvíkkað. Í tilkynningunni segir að stefnt sé að því að nýr rekstraraðili verði með veitingarekstur samhliða því að bjóða til sölu ýmsa vöruflokka frá Olís, svo sem bílavörur og gas.