Yfir 500 manns á árshátíð SVN í Gdansk
Í lok mánaðarins mun starfsfólk Síldarvinnslunnar, Bergs – Hugins og Bergs ásamt mökum halda til Gdansk í Póllandi. Þar verður haldin árshátíð laugardagskvöldið 29. október en hópurinn sem heldur utan telur 520 manns.
Þetta kemur fram á vefsíðu Síldarvinnslunnar. Þar segir að í Gdansk verður búið á þremur hótelum í miðborginni. Hótelin eru þekkt fyrir gæði og heita Radisson Hotel and Suites, Holiday Inn Hotel og Puro Hotel
Föstudagskvöldið 28. október verður boðið upp á gleðskap á Roof Top by Sassy sem er skemmtistaður í nágrenni hótelanna. Þar mun Matti Matt halda uppi fjörinu. Árshátíðin fer hins vegar fram á Plenum sem er á skipasmíðasvæði borgarinnar.
Rútuferðir verða frá hótelunum að Plenum og einnig til baka að hótelunum. Veislustjórar á árshátíðinni verða Selma Björns og Jógvan Hansen.
Boðið verður upp á rútuferðir frá Neskaupstað og Seyðisfirði til Egilsstaða við brottför og sömu leið til baka þegar heim verður komið. Farþegar þurfa að vera komnir á Egilsstaðaflugvöll tveimur tímum fyrir brottför. Í þessari viku munu skráningar hefjast í rútuferðirnar.
Mynd: Frá skemmtistaðnum Roof Top by Sassy. Mynd svn.is.