Ævintýramaður skoðar Austfirði á leið sinni yfir hafið til Grænlands

Norskur ævintýramaður og áhrifavaldur sem siglir einn á skútu sinni til Grænlands hefur þessa dagana viðkomu á Austfjörðum. Hann nýtir tækifærið til að skoða sig um meðan hafísinn minnkar og segir heimafólk alls staðar taka sér vel.

„Þetta er fjórða tilraun mín til að sigla til Grænlands. Í fyrsta skiptið var þar allt fullt af hafís. Covid stoppaði næstu atlögu þegar ég var kominn til Færeyja.

Í þriðja skiptið veiktist ég illa á leiðinni, þurfti að vera í þrjár vikur í Færeyjum og svo var veðrið vont. Ég beið heila viku á Ísafirði eftir að það lagaðist. Þar bættust fjórir dagar við eftir að ég meiddist í baki eftir að hafa runnið í olíupolli á þilfarinu.“

Ekkert kjaftæði – bara siglt


Þetta eru raunir Erik Aanderaa, ríflega fertugs Norðmanns sem kunnugir lýsa sem áhrifavaldi meðal þeirra sem hafa áhuga á skútusiglingum. Hann notast bæði við nafn sitt og vörumerkið „No Bullshit – Just Sailing (NBJS)“ eða „Ekkert kjaftæði – bara siglt“

Erik segist hafa heillast af siglingum þegar hann hóf að stunda þær ellefu ára gamall og hann vann lengi sem stýrimaður á skipi sem flutti vistir og birgðir fyrir olíuborpalla í Norðursjó.

Undanfarin átta ár hefur Erik byggt upp fylgjendahóp á samfélagsmiðlum. Þungamiðjan er YouTube-rás hans með tæplega 240 þúsund fylgjendum en einnig vinsælar Instagram og Facebook rásir. Þar birtir Erik myndir, myndbönd og frásagnir af ferðum sínum, einkum leiðinni milli staða og því sem þar er að sjá en hann segist sigla milli staða í 3-4 mánuði á ári. Þar má einnig finna hagnýt ráð um skútusiglingar. „Myndböndin eru mikið um hvernig ég kemst milli staða og hvað gerist á leiðinni.“

Fylgjendur í hverri höfn


Í þessari ferð sigldi Erik frá Helgusund í Noregi þann 24. júní og hafði viðkomu á Hjaltlandseyjum og Færeyjum áður en hann kom til Fáskrúðsfjarðar síðasta fimmtudag. Á mánudag kom hann til Norðfjarðar og var um borð í skútu sinni að klippa nýjasta myndbandið þegar Austurfrétt hafði tal af honum í gær. Hann hefur þegar birt ljósmyndir og frásagnir af Austfjörðum á samfélagsmiðlum.

„Í nánast hverri höfn býður einhver eftir mér, trúlega fólk sem fylgir mér á miðlunum, til að geta sýnt mér umhverfið. Á Fáskrúðsfirði tóku feðgarnir Júlíus Albertsson og Albert Geirsson á móti mér. Þeir sigldu með mig út í Skrúð. Það var stórkostlegt að sjá eyjuna og allt fuglalífið.

Hér í Neskaupstað var það Theodór Elvar Haraldsson. Hann keyrði mig um allan bæinn og sýndi mér meðal annars snjóflóðavarnirnar. Það er virkilega vel hugsað um mig,“ segir Erik.

Bíður meðan hafísinn bráðnar


Erik verður nokkra daga á Norðfirði en ætlar sér síðan til Vopnafjarðar, Raufarhafnar og þaðan áfram til Húsavíkur. Hann fer sér hægt meðan hann bíður eftir að hafísinn við austurströnd Grænlands bráðni og býst við að stoppa í nokkurn tíma á Húsavík.

„Það hefur ekki sést viðlíka hafís í 50 ár. Ég sé þó á gervitunglamyndum að hann er byrjaður að bráðna. Ég vona að það haldi áfram þannig að siglingaleiðin opnist. Markmið mitt er að sigla inn Skoresby-sund að litlu þorpi. Annars hefur mig dreymt um að sigla innan um hafís þannig að ef sundið opnast ekki þá ætla ég upp að ísröndinni, bara til að upplifa það ævintýri.“

Erik er alltaf einn á ferðinni og segist hafa komist að því að sá ferðamáti henti honum best. „Það er stundum erfitt að vera einn, til dæmis í óveðri en ég er ævintýramaður í eðli mínu þannig mér líður vel í krefjandi aðstæðum. Áður var ég með aðra með en fólk varð sjóveikt og það þurfti að taka sameiginlegar ákvarðanir um hvert væri siglt.

Það hljómar kannski sjálfselskt en það gerir mig frjálsan að sigla einn. Þá get ég farið þangað sem ég vil, þegar ég vil í hvaða veðri sem er.“

Mynd: Berglind Bjørk


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.