Margvísleg tækifæri fyrir Háskóla Íslands með aðstöðu á Hallormsstað
Kennsla hófst á háskólastigi í Hallormsstaðaskóla í lok ágúst. Það er í fyrsta sinn sem háskólanám er kennt í staðnámi á Austurlandi. Rektor Háskóla Íslands segir að með frekari nýtingu á aðstöðunni á Hallormsstað opnist fleiri möguleikar, bæði á háskólanámi í fjórðungnum.
Hallormsstaðaskóli hóf starfsemi 1. nóvember árið 1930 með hússtjórnarnámi. Það hélst fram til ársins 2019, þegar skólanum var breytt og þar hafin kennsla í skapandi sjálfbærni. Það nám var fært upp á háskólastig nú í haust í samvinnu við Háskóla Íslands.
Silja Bára Óskarsdóttir, rektor HÍ, segir námið á Hallormsstað bjóða upp á ýmsa möguleika. Innan skólans er verið að þróa svokallað örnám, námskeið sem nemendur geta tekið og safnað sér upp í prófgráðu. Þau geta verið 1-59 einingar, en diplómur eru nú orðnar 60 einingar.
„Hér á Hallormsstað gæti til dæmis verið hægt að taka þrjú sex eininga námskeið sem flokkuðust saman sem örnám. Fyrir það fengi nemandinn skírteini og gæti haft það á ferilskrá sinni. Síðan er hægt að safna saman einingum sem tengjast og ræða við háskóla hvort þær gangi upp í gráðu,“ segir Silja Bára.
Vill móta stefnu um fjarnám og dreifnám
Aðstaðan á Hallormsstað getur einnig nýst sem aðstaða fyrir kennara úr HÍ til að kenna ákveðin námskeið.
„Það hefur komið upp sú hugmynd að hér á Hallormsstað gætum við boðið upp á staðlotur, að kennarar kæmu hingað frekar en að hópur nemenda þyrfti að koma suður. Ef við tökum dæmi um þörf á kennslu í fjármálafræði og við kæmum með hana, þá er viðbúið að eftir ákveðinn tíma væri sú þörf mögulega mettuð og við myndum beina sjónum að öðru viðfangsefni en eftir einhvern tíma yrði fyrri þörf aftur raunin.
Við erum með ýmiss konar nám í fjarnámi. Innan minnar deildar, stjórnmálafræðinnar, hefur opinber stjórnsýsla (MPA) verið kennd í fjarnámi því það er viðurkennt að við þurfum fólk út um allt land sem getur unnið innan stjórnsýslunnar. Mögulega þurfum við að bjóða meira af meistaranámi í fjarnámi. Þegar fólk er komið í það er það oft komið með fjölskyldu og á erfiðara með að flytjast búferlum.
Þetta eru allt samtöl sem við eigum þessa dagana og tökum með okkur í þá stefnumótun sem fram undan er hjá Háskóla Íslands. Þetta eru möguleikar sem við munum skoða.“
Aðstaða til rannsókna
Hallormsstaður getur líka nýst sem vettvangur, fyrir bæði nemendur og kennara úr HÍ, til rannsókna. Í sumar dvöldu til dæmis rannsakendur frá HÍ á Hallormsstað á meðan þeir söfnuðu gögnum um jarðvegsgæði í austfirskum sveitum. Silja Bára telur að með fleiri stöðvum HÍ á Austurlandi skapist frekari grundvöllur til samvinnu þeirra á milli.
„Stúdentar sem eru hér geta nýtt þau tengsl sem þau hafa. Stúdentar úr borginni geta komið og unnið sín verkefni hér. Hér eru ýmsir hlutir fyrir sjálfstæð rannsóknarverkefni eða lokaverkefni.
Að geta nýtt aðstöðuna, sérstaklega þann tíma sem stúdentar búa ekki í henni, er eitthvað sem við þurfum að vera dugleg að kynna innan háskólans. Við þurfum að tala við deildirnar og sviðin um hvort þau sjái tækifæri hér. Nýtingin verður væntanlega á einstaklingsgrundvelli til að byrja með, þannig að eitt ár gætum við séð mikil umsvif hér og annað ár lítil umsvif, en þetta eru tækifæri til að styrkja samstarfið.“
Lengri útgáfa fréttarinnar birtist áður í Austurglugganum.