Skip to main content

Ævintýri að fá að farða einn frægasta rappara Evrópu

LífiðThis email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.Fyrst birt 09. júl 2025 16:58Uppfært 09. júl 2025 17:31

Bríet Irma Jónudóttir frá Fáskrúðsfirði var Austfirðingurinn í starfsliði þýsku rappstjörnunnar Kontra K á meðan hann dvaldi á Austurlandi við upptökur á tónlistarmyndbandi í vor. Hún sá um förðun og annað tilfallandi eftir að hafa stokkið í verkefnið með nokkurra daga fyrirvara.


„Tveimur dögum áður en þeir komu spurðu þeir hvort ég gæti ekki séð um fatnaðinn líka og ég hélt að það yrði ekkert mál. Síðan sendi hún mér yfirlit yfir fötin sem hann átti að vera í og þá þurfti ég að fara að læra að sauma saman leður.

Síðan hafði ég séð fyrir mér að þetta væru tveir karlkyns rapparar þar sem ég þyrfti bara að púðra nef og gera einfalda hluti. En svo voru þetta karl og kona og ég þurfti að rjúka til í snyrtitöskuna mína. En þetta gekk ótrúlega vel,“ segir Bríet Irma.

Töfrasmyrsl fá Fáskrúðsfirði á þýska rapparann


Kontra K dvaldi á Austurlandi í nokkra daga í apríl við tökur, aðallega við Stuðlagil og Dettifoss, á myndbandi við lagið „Geboren um zu Leben.“ Hann flutti lagið ásamt Ness, rísandi stjörnu frá Austurríki. Kontra K er einn þekktasti rappari Þýskalands þar sem hann hefur átt fjölda laga í fyrsta sæti vinsældalista.

Bríet Irma segist hafa þurft að bregðast við nokkrum óvæntum uppákomum. Á fyrsta tökudegi í sterkri sól við Stuðlagil sólbrann rapparinn í andliti. Á meðan hópurinn fór í mat eftir komuna aftur í Egilsstaði hljóp Bríet Irma á milli búða að redda kremum. Lausnin var þó nær en hún hélt í fyrst.

„Ég áttaði mig á að ég væri með Töfrasmyrslið frá Jurtadísinni á Fáskrúðsfirði með mér. Ég setti það á strákana og roðinn hvarf strax.“

Snéri baki við glæparappinu


Kontra K fellur í flokk Íslandsvina því þetta var fimmta myndbandið sem hann tekur upp hérlendis. Hann segir Ísland ávallt opið þegar önnur sund lokist en upphaflega átti að taka myndbandið nú í Egyptalandi.

Kontra K heitir réttu nafni Maximilian Diehl en kynnir sig einfaldlega í persónu sem „Max.“ Hann byrjaði í svokölluðu glæparappi en snéri við blaðinu, meðvitaður um að hann væri fyrirmynd.

„Ég var aldrei gangster, ég dróst bara inn í þá hugmyndafræði. Síðan kom að því að ég hugsaði að ég gæti ekki sagt þetta við neinn, börn eða aðra. Ég vildi að faðir minn gæti verið stoltur af mér og hvernig gat hann verið það á meðan ég var að segja allt þetta. Ég vildi líka vera góð fyrirmynd fyrir börnin mín.“

Ekki betra en annað fólk


Kontra K segist í staðinn rappa um þær tilfinningar sem við öll þurfum að fást við: ást, hatur, sársauka og lífið. „Við deilum öll þessum tilfinningum og þær sameina okkur. Ég held að það sé virkileg list að rappa um þær. Ég hef misst fólk í kringum mig síðustu ár og það hefur tekið á.“ Hann segist hafa alist upp á fátæku heimili en rappið veitt honum tækifæri til að ferðast um og sjá hluti sem hann annars sæi ekki. Að vera úti í náttúrunni eins og á Íslandi veiti honum mikla gleði.

Annað áhugavert í hans ferli er að fyrir tónlistarferilinn starfaði hann hjá fyrirtæki sem þjónustaði háar byggingar. Það hafi verið í raun verið vinnan sem stóð honum til boða því flestar aðrar leiðir voru honum lokaðar. Hann byggði upp fyrirtæki í greininni og á það enn, með tugi manna í vinnu, þótt tónlistin sé hans aðalstarf.

Úti í Þýskalandi mæta tugþúsundir á tónleika hans og hann þekkist út á götu, en á Egilsstöðum var hann bara herðabreiður húðflúraður töffari í svartri hettupeysu. „Ég elska að vera bara venjulegur náungi hér – en ég er það líka í Þýskalandi. Ef þú verður háður athyglinni þá ertu ekki lengur sama manneskja. Ég er Max bæði hér og þar. Vissulega þekkja mig sumir út á götu og vilja fá mynd en ég er samt sami Maxinn þar og er að tala við ykkur hér. Pabbi sagði að ég væri ekki betri en annað fólk, ég væri bara heppinn á þessari stundu.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.