„Ævintýri hans og uppátæki eiga sér engin takmörk“

Páll Leifsson, eða Palli í Hlíð, er löngu orðinn þjóðsagnapersóna á Eskifirði og víðar. Palli hélt á föstudag upp á 80 ára afmæli sitt en fyrir síðustu jól kom út bók félaga hans, Sævars Guðjónssonar og Þórhalls Þorvaldssonar um ævi hans og uppátæki.

„Ég er búinn að þekkja Palla síðan ég var polli. Ég heyrði auðvitað margar sögur af honum en það var kannski sérstaklega þegar ég hóf starfsemina á Mjóeyrinni sem hann hóf að venja þangað komur sínar og var ávallt reiðubúinn að hjálpa til og aðstoða ef hann gat eitthvað gert.

Hann aðstoðaði mig með fjölmargt eins og hreindýraleiðsögn og að flaka fisk og ýmislegt annað. Þá fór ég að heyra fleiri og fleiri sögur en sögurnar sem hann sagði voru af því taginu að maður hætti því sem maður var að gera og lagði bara við hlustir. Ég áttaði mig á að hann á stórmerkilega sögu að baki og mér er til efs að einhver eigi eftir að lifa svona lífi eins og Palli hefur gert.

Mér fannst orðið eins og ég skuldaði honum að koma sögu hans á blað fyrir allt sem hann hafði gert fyrir mig og þar með varðveita þessa sögu,“ segir Sævar um tilurð bókarinnar en hann fékk Þórhall, fyrrum kennara á Eskifirði, til aðstoðar.

Einn öflugasti veiðimaður landsins


Páll er þekktur sem einn af öflugri veiðimönnum landsins, hvort sem um var að ræða fisk, sel, fugla, hreindýr eða jafnvel hrefnur. Hann var um leið duglegur að aðstoða vísindafólk við að afla gagna um dýr. Sævar segir að honum sér minnisstætt úr æsku þegar Palli hvarf mánuðum saman á vorin og enginn virtist vita hvert hann fór.

„Í ljós kom þó með tímanum að Palli fór á flakk um landið að sinna hinu og þessu fyrir hina og þessa og er það hreint lygilegt hversu víða hann kom við á landinu og hversu margir annars staðar en hér fyrir austan vita hver kappinn er í gegnum þau störf.

Sérstaklega kom það mér og fleirum á óvart þegar við hófum skrifin hversu mikið hann hafði aðstoðað fræðasamfélagið. Það er varla til sá hvalur sem rekið hefur að landi síðustu 50 ár sem Palli hefur ekki krukkað í. Hann var aldrei að æsa sig yfir að fá greitt fyrir margt af því og sjálfur hafði ég aldrei fengið að borga honum neitt fyrir eitt og annað sem hann hjálpaði mér með.“

Saga úr bókinni:


Tímavinna hefur aldrei verið í uppáhaldi hjá Palla, þótt hann hafi stundum orðið að gera sér hana að góðu. Hann hugsar nefnilega í mánuðum og árstíðum, ekki í mínútum og klukkutímum. „Helvítis vinnan slítur í sundur hjá manni frítímann,“ var orðatiltæki hans og átti hann þá við tímavinnuna. Líklega var allt annað vafstur bara áhugamál hans, þótt hann fengi að sjálfsögðu greitt fyrir það! Þegar Palli vann hjá Ingvari Gunnarssyni í fiskverkuninni Þór hf. á Eskifirði — í tímavinnu — tók hann eftir því að Palli fór að ókyrrast þegar vorið nálgaðist. Þá var hugur hans kominn eitthvað annað — út í náttúruna. Og þegar klukkan hans sló „apríl“ var ekki annað hægt en að sleppa honum lausum.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.