Áhersla á að varðveita verklega námið

Bjargey Anna Guðbrandsdóttir tók í haust við sem nýr verkefnastjóri Hallormsstaðaskóla. Helstu verkefni hennar snúa að því að laga nám skólans að þeim kröfum sem þarf að uppfylla til að það teljist fullgilt háskólanám. Hún segir miklu máli skipta að standa vörð um það verknám sem byggst hefur upp í kringum skólann. Ráðning hennar er hluti af samstarfi Hallormsstaðaskóla og Háskóla Íslands.

Fullt starfsheiti Bjargeyjar er „verkefnastjóri í sköpun og sjálfbærni.“ Hún er ráðin til Háskóla Íslands en með starfsstöð á Hallormsstað. Fyrir jól var tilkynnt að námsbraut Hallormsstaðaskóla í skapandi sjálfbærni verði framvegis háskólanám, sem þýðir að nemendur fá viðurkenndar einingar úr því.

Til þessa hefur það verið á fjórða hæfniþrepi, milli framhaldsskóla og háskóla og því örlítið fallið milli skips og bryggju. Kennt hefur verið eftir því skipulagi síðan 2015.

Skóli án stundatöflu


Bjargey Anna telur að ekki þurfi að gera verulegar breytingar á náminu á Hallormsstað til að það standist kröfur sem gerðar eru til háskólanáms. „Einhvers staðar þarf að bæta við en ekki að verulegu leyti. Allir segja við okkur að passa upp á verklega hlutann. Hættan við háskólastigið er að námið verði of akademískt og bóklegt, þótt við þurfum alltaf að gæta að þeim grunni.“

Bjargey Anna vann í um áratug hjá Háskóla Íslands, lengst af sem verkefnisstjóri náms í umhverfis- og auðlindafræði. „Stærsti munurinn er að hér er ekki stundatafla, sem er æðislegt. Hún var aflögð. Hér er kennt frá 9 til 12, síðan er klukkutími í mat og svo er aftur kennt frá 13 til 16.

Maður sér í HÍ hvað stundataflan stýrir miklu, til dæmis er mikið púsl að bóka kennslustofur og síðan heldur það púsl áfram með próftöflunni. Hér erum með með kennslurými í húsinu og svo allt sem er utanhúss, þannig tíminn líður allt öðruvísi. Mér finnst þetta gefa meiri sveigjanleika og flæði.“

Finna sveigjanleika innan háskólarammans


Þetta skýrist meðal annars af því að skólinn er aðeins með fjóra fasta starfsmenn en treystir þeim mun meira á að fá sérfræðinga að til að kenna sín sérsvið. Þeir eru á staðnum í nokkra daga og á meðan snýst allt námið um þeirra kennslu. „Þetta þýðir að nemendur geta einbeitt sér að faginu í stað þess að vera að hoppa á milli faga eins og í venjulegum skóla.“

Aðspurð um hvort hún búist við að fá að halda þessu frelsi á háskólastiginu svarar hún hlægjandi að það sé vonandi og fjarlægðin hjálpi þar til. „Námið okkar flæðir á milli áfanga. Í dag eru þetta fjórir áfangar, síðan hugtakavinna, vinnustofur og lokaverkefni. Fyrir háskólanámið þurfum við að búa til sex tíu eininga námskeið, við getum ekki haft þetta eitt sextíu eininga. Það setur okkur ákveðnar skorður en við teljum okkur samt hafa sveigjanleika innan þessa ramma.

Við vorum á fundum í Reykjavík í haust til að rýna námsleiðirnar og þar fengum við þau skilaboð að passa upp á það sem er einstakt við námið hér, sem er tímaleysið og verklegi þátturinn.“

Mýramanneskja


Bjargey Anna er sjálf uppalin að Staðarhrauni á Mýrum í Borgarfirði fyrir vestan, þar sem foreldrar hennar voru með blandað sauðfjár- og kúabú. Hún er fjórða í röðinni af átta systkinum og gekk í grunnskóla að Varmalandi, þar sem var heimavist. Síðast var hún framkvæmdastjóri Gleipnis – nýsköpunar- og þróunarseturs á Vesturlandi.

„Ég vann hjá Háskóla Íslands í 11 ár þar til mig langaði að breyta til. Ég tók að mér að leiða Gleipni sem var þá nýtt nýsköpunarsetur á Vesturlandi með sérstaka áherslu á nýsköpun í matvælaframleiðslu og landbúnaði. Það starf passaði ekki við mig og um síðustu áramót fór ég að leita mér að nýju starfi. Fyrrum samstarfskona mín úr háskólanum benti mér á starfið hér og þegar ég las lýsinguna fannst mér það passa mér vel.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.