Áhersla á matinn að skila sér í Berunesi

Það er heldur óvanalegt að koma að litlu gistiheimili og tjaldsvæði í fámennum austfirskum firði og komast að því að innandyra er þessi aldeilis fíni veitingastaður þó lítill sé og þar í eldhúsinu þaulvanur erlendur kokkur sem lærði fagið í einhverjum besta kokkaskóla Austurríkis.

Það er þó raunin í Berunesi í Berufirði en þar lengi verið rekin gistiþjónusta auk tjaldsvæðis. Þar hefur um langa hríð Ólafur Eggertsson ráðið ríkjum en börn hans hafa tekið að hluta til í taumana að sumarlagi frá því í fyrra og skiptast á að sinna því sem þarf á svona stað.

Eitt af því sem systkinin ákváðu fyrir ári síðan var að prófa að gera aðeins meira varðandi matinn á staðnum. Það helgast að stórum hluta af vinnu austurríska kokksins Abiathar Sacadat að sögn Þóris Ólafssonar, eins af afkomendum ábúandans, en hann líkt og önnur systkini skiptast á að koma austur á heimaslóðirnar og aðstoða föður sinn eftir mætti.

„Það oftast erlendir ferðamenn sem koma hingað en það sem hefur gerst núna og varð vart við í fyrra líka að hingað eru líka farnir að koma Íslendingar sem ekki eru að gista heldur aðeins koma í mat til okkar. Það aftur afleiðing af því að við tókum þá ákvörðun að prófa að setja eldhúsið og veitingastaðinn á oddinn en þó halda verðinu niður eins og kostur er og það er að skila sér vel,“ segir Þórir.

Svo vel hefur tekist til á tiltölulega skömmum tíma að veitingastaðurinn er með 4.9 í einkunn ferðafólks á Google en hæsta einkunn sem veitingahús geta fengið þar er 5.

„Við ákváðum saman í fyrra að prófa að setja góðan metnað í matargerðina. Leika okkur með hráefni héðan og elda það og framreiða með ferskum og nýstárlegum hætti en gæta þess líka að bjóða allt á sanngjörnu verði. Það gekk vel í fyrra og það virðist vera að skila sér vel núna líka.“

Mynd: Aðsend

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.