Allt orðið klárt fyrir Sumarhátíð UÍA á Egilsstöðum
Klukkan tíu í fyrramálið hefst árleg sumarhátíð Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands þar sem börn og ungmenni reyna sig við hinar ýmsu mismunandi íþróttagreinar
Undirbúningur allur hefur gengið snurðulaust fyrir sig að sögn Gunnars Gunnarssonar, eins skipuleggjenda hátíðarinnar, en óljóst er enn hve mikil þátttakan verður enda enn opið fyrir skráningu.
Hátíðin nú er með svipuðu sniði og verið hefur og reyna börnin og unglingarnir sig í greinum á borð við frjálsum, folfi, sundi, vítakeppni, motokross, körfubolta og bogfimi og líkt og í fyrra fer fram keppni í kökuskreytingarkeppni.
Það er fyrst og fremst veðurspáin sem ræður jafnan fjölda þátttakenda að sögn Gunnars enda allnokkrar greinarnar utandyra.
„Veðrið hefur alltaf einhver áhrif á hversu margir taka þátt þannig að það er eiginlega það eina sem við erum að horfa á núna. Spáin fyrir helgina nú er að það ætti að verða alveg ágætt á morgun laugardag en svo á að kólna og vera einhver rigning á sunnudaginn. Reyndar er það svo að krakkarnir eru nú töluvert minna að spá í veðrið en við þessi fullorðnu en vissulega getur þetta haft áhrif á hversu margir taka þátt í útigreinunum.“
Stendur alla helgina
Hátíðin hefst á morgun með frjálsum fyrir 11 ára og eldri á Vilhjálmsvelli áður en við tekur vítakeppni fyrir ofan völlinn. Á hádegi er svo folf í Tjarnargarðinum áður en deginum lýkur á Vilhjálmsvelli aftur með frjálsum fyrir yngri en 10 ára. Dagurinn endar á grillveislu á sama stað.
Sunnudagurinn hefst með sundmóti í sundlaug Egilsstaða og hálftíma síðar reyna keppendur sig í golfi á Ekkjufellsvelli. Eftir hádegið er bogfimimót á gamla íþróttavellinum að Eiðum og á sama tíma keppnin í kökuskreytingum í Egilsstaðaskóla. Hátíðinni lýkur svo með körfuboltamóti við íþróttahúsið og keppni í motorkross í Mýnesi.