„Alltaf verið heilluð af dýrum“
Sunna Júlía Þórðardóttir þekkir öll dýrin á Skorrastað í Norðfjarðarsveit með nafni. Hún starfar þar með foreldrum sínum að búinu og ferðaþjónustu sem byggð hefur verið upp í kringum hestaferðir. Þess utan er hún starfsmaður blakdeildar Þróttar og spilar með kvennaliðinu.„Mamma og pabbi voru með svín, kindur og hesta þegar ég var krakki. Amma og afi voru einnig með hesta, kindur og svo kýr líka. Ég er alinn upp í kringum þetta allt. Það voru alltaf hundar á heimilinu og svo fékk ég kött þegar ég var sjö ára, hana Hosu,“ segir Sunna Júlía. Dýrahaldið á Skorrastað hefur aðeins breyst þau 31 ár sem hún hefur lifað. Svínin eru horfin en í staðin eru komnar geitur, hænur og kalkúnar.
„Við vorum alltaf með dýragarð á Neistafluginu í Gamla lystigarðinum. Ég man eftir því þegar dýrin voru sett á kerru á föstudagsmorgni og flutt aftur heim um kvöldið. Síðan var þetta endurtekið bæði laugardag og sunnudag.
Eitt sinn fengum við nokkra kettlinga frá Egilsstöðum til að vera með til sýnis. Þeir sluppu úr búrinu sínu á leið út í Neskaupstað. Öðru sinni fengum við endur og álftir. Þær fóru með kúnum á kerru. Þegar við komum út eftir voru hvítu endurnar allar grænar af kúaskít þannig að við þurftum að byrja á að baða þær!“
Stýrði hestunum í Suður-Afríku eins og kúreki
Aðspurð segist Sunna ekki hafa haft skýra stefnu um að verða bóndi, ýmislegt hafi komið til greina framan af. „Ég ætlaði að verða svo margt, kennari eins og pabbi – þó ekki listamaður eins og mamma. Ég hafði enga þolinmæði fyrir því. En að minnsta kosti helming ævinnar hef ég séð fyrir mér að búa hér.“
Hún kláraði náttúrufræðibraut í Verkmenntaskóla Austurlands en hafði líka áhuga á tungumálum. Hún vann heima fyrsta árið eftir útskrift en flutti síðan til Danmerkur í fatahönnunarnám. „Ég vissi ekkert hvað mig langaði að gera en það hafði komið skóli frá Danmörku með kynningu í VA. Ég hafði alltaf áhuga á fatatísku þannig að ég skráði mig bara í þennan skóla. Bara til að læra eitthvað.“
Sunna tók eina önn í starfsnámi í Reykjavík og ílengdist þar í vinnu, meðal annars í byggingavinnu, en kom austur á sumrin. Hún söðlaði síðan um haustið 2016 og réði sig í vinnu á hestabúgörðum í Suður-Afríku í alls þrjá mánuði.
„Fyrri staðurinn hentaði mér ekki svo ég fann mér fljótt annan sem var bara með hestaleigu. Hann átti vel við mig. Þar voru alls konar erlendir hestar. Þeim er ekki stjórnað með taumi og átaki eins og íslenska hestinum heldur með svona kúrekastíl, haldið með annarri hendinni og stýrt með sætinu. Mér fannst þetta mjög skemmtilegt og góð tilbreyting að læra nýja reiðstíla.
Fyrsta daginn minn hjá þessu fyrirtæki fylgdi ég eftir konunni sem var leiðsögumaðurinn. Daginn eftir var ég send ein í reiðtúr með ferðamenn. Búgarðurinn var einhvers staðar lengst inni í skógi og ég átti að elta rauðu spottana á trjánum, beygja alltaf til hægri. Ég hélt að ég væri orðin rammvillt en ég endaði heil heima – með gestina sem betur fer.“
Sunna vann síðan í Kanada, Þistilfirði og Skagafirði í kjölfarið, stefndi að því að komast inn í hestamennskunám í Háskólanum á Hólum en segist ekki hafa þekkt rétta fólkið til þess að komast inn í skólann. Hún fór til Þýskalands til að ná betri tökum á þýskunni, sem tókst vel, og síðan í LungA-skólann á Seyðisfirði. „Jóna systir hvatti mig til að fara í hann og ég hugsaði bara af hverju ekki.“
Pönnukökurnar sérstaða í hestaferðunum
Foreldrar þeirra, Þórður Júlíusson og Theodóra I. Alfreðsdóttir, stofnuðu ferðaþjónustufyrirtækið Skorrahesta árið 2009. Í fyrstu var gert út á lengri hestaferðir, síðan byrjuðu þau að breyta hluta útihúsanna í gistingu þar sem eru sex herbergi í dag.
Hestaferðirnar hafa síðan styst, og í dag eru þær ýmist einn eða tveir klukkutímar, með pönnukökum á eftir lengri ferðunum. „Við pabbi sjáum um reiðtúrana, mamma bakar pönnukökurnar. Pönnukökuferðirnar eru okkar sérstaða,“ segir Sunna. „Við viljum segja sem mest frá. Pabba finnst skemmtilegast að segja frá sjálfum sér en ég vil segja frá öllu í kringum hestana! Ég segi að hesturinn heiti Smári, sé fæddur á næsta bæ en heiti eftir manni úti í kaupstað og hafi verið hesturinn minn þegar ég var krakki.
Mér finnst sjálfri leiðinlegt að fara eitthvert og upplifa að vera bara ein af þúsundum gesta. Við viljum leyfa gestunum að kynnast okkur. Þess vegna viljum við helst bara smærri hópa. Við erum það langt frá þjóðveginum að flestir okkar gesta gera sér sérstaka ferð til okkar. Sumir koma ár eftir ár eða senda vini sína. Orðsporið er farið að breiðast út.“
Hún segir gestina var fljóta að aðlagast hestunum. „Jafnvel algjörir byrjendur. Fólkið fer með okkur að sækja hestana út á tún, við sýnum hvernig þeir eru beislaðir og bjóðum fólkinu að kemba þeim. Við reynum að útskýra allt vel. Síðan snýst þetta fyrst og fremst um jafnvægið. Okkar hestar eru þó ekki eins og á sumum hestaleigum, nánast sjálfvirkir. Þú þarft að geta stýrt hestinum hjá okkur. Við erum líka orðin sjóuð í að meta hvaða hestar og gestir passa saman. Sambandið á milli manns og hests verður alltaf að vera gott. Þess vegna er það þannig að þegar fólk er búið í ferð hjá okkur er það ekki byrjendur lengur.“
Fleiri dýr eru á Skorrastað en hestarnir. „Það hafa allir mjög gaman af hundinum mínum. Og dýrunum almennt. Mér finnst gaman að sýna þau. Við erum yfirleitt með hrútana heima og einhverja heimalninga. Eitt sinn áttum við enga heimalninga heldur fengum af næsta bæ. Fólkið þar var mjög ánægt með það fyrirkomulag. Gestunum finnst gaman að gefa heimalningunum úr pela. Fólk kemur líka með okkur að gefa dýrunum sem eru heima, hænunum, kanínunum og geitunum eftir morgunmat.
Þar höfum við líka sérstöðu. Við borðum morgunmat með gestunum á gistiheimilinu. Við setjumst alltaf niður og tölum við þá. Eftir morgunmatinn gefum við dýrunum margt af því sem gengur af.“
Hesturinn með sósíalistanafnið
Við vitjum hestanna með Sunnu og lítum við í fjárhúsunum. Á meðan við göngum þar um kynnir hún hvert dýr fyrir okkur með nafni og bætir gjarnan við útskýringu á nafninu sem oft tengist ættinni. „Öll dýrin okkar hafa nöfn og ég pæli mikið í þeim. Stundum nota ég orðabók en ég er líka alltaf að skrifa hjá mér skemmtileg nöfn. Ég væri ekki í neinum vandræðum þótt ég myndi taka upp á því að eignast 18 börn!
Oft er þetta í ættinni. Við áttum rollu sem hét Rjúpa, síðan eignaðist hún dóttur sem við nefndum Hvítlóu, sem er annað heiti á rjúpu. Önnur heitir Hrísla, undan Urtu. Í þeirri ætt eru líka Einir, Arfur, Fura, Eik og Krækla.“
Eitt hestanafnið vekur sérstaka athygli, Smári sem nefndur er eftir Smára Geirssyni, sagnfræðingi Norðfirðinga og fyrrum forseta bæjarstjórnar. „Pabbi fékk hann frá Einari Sigfússyni í Skálateigi. Hesturinn fæddist 1. maí, þess vegna vildi Einar tengja hann við einhvern verkalýðsleiðtoga en vildi þó ekki kalla hann Trotskí, Marx eða álíka. Því nefndi hann hestinn eftir sósíalistanum Smára Geirssyni. Hann varð síðan fyrsti reiðhesturinn minn. Áður fyrr voru alltaf strákalæti í honum á vorin en nú er hann einn aðal barnahesturinn okkar. Þegar við útskýrum nafnið á honum köllum við hann stundum kommúnistann eða tengjum hann við Heilagan Patrek. Það fer eftir því við hvaða gesti við tölum!
Annar hestur í hópnum heitir Úlfur. Hann fæddist á Eistnaflugshelgi. Hljómsveitin Úlfur Úlfur gisti hjá okkur þá nótt. Einn einn heitir Sólstafur. Hann fæddist á meðan Sólstafir voru á sviðinu. Þessi nöfn og pælingarnar á bak við þau koma oft umræðum af stað. Þegar gestir fara frá okkur þá gefum við þeim nafnspjald frá okkur og skrifum nafnið á þeim og hestinum sem þau sátu. Það finnst þeim skemmtilegt. Við höfum oft fengið myndir af þeim spjöldum uppi á ísskáp eða í barnaherbergjum.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.