Aukin vetrarferðamennska stærsta sóknarfærið
Vök Baths við Urriðavatn á Fljótsdalshéraði fagna fimm ára afmæli sínu um þessar mundir. Framkvæmdastjóraskipti urðu hjá fyrirtækinu um áramótin þegar Kristín Dröfn Halldórsdóttir tók við af Aðalheiði Ósk Guðmundsdóttur.Kristín Dröfn er uppalin á Hjartarstöðum í Eiðaþinghá. Hún hélt suður á land eftir menntaskóla til að nema og ílengdist þar um tuttugu ára skeið, mikið til starfandi við ferðaþjónustu með einum eða öðrum hætti, áður en heimahagarnir fóru að toga á nýjan leik. Hún flutti því til Egilsstaða fyrir tveimur árum með dóttur sína og segir þá ákvörðun hafa blundað í henni um tíma því margs hafi verið að sakna að austan.
„Ég var búin að vera búsett í Reykjavík í um 20 ár. Bæði var ég að mennta mig og svo vinna í kjölfar þess hin ýmsu störf og mörg hver einmitt í hótelgeiranum. Ég starfaði einnig sem flugfreyja um tíma og í lokin var ég að selja hugbúnaðarlausnir fyrir hótel, heilsulindir og veitingastaði.“
Það kom þó að því hjá Kristínu að heimahagarnir kölluðu: „Ég kom mér fyrir hér á Egilsstöðum í nálægð við fjölskyldu og vini og vann þá fyrir fyrirtækið LS Retail í fjarvinnu. Svo var staða framkvæmdastjóra Vök auglýst og mér bent á að þetta áhugaverða tækifæri. Starfið vakti áhuga minn þar sem það samræmdist að einhverju leiti fyrri reynslu og áhugasviði og sendi inn umsókn. Fékk starfið og hér hef ég starfað frá því í janúar byrjun.“
Nýja starfið kallast töluvert á við störf og að stórum hluta áhugamál Kristínar gegnum tíðina en hún hefur komið nálægt hinum ýmsu störfum við hótel og ferðaþjónustu um margra ára skeið. Sá áhugi kviknaði snemma því eitt af fyrstu störfum Kristínar var á Hótel Eddu á Eiðum.
„Mér hefur gengið illa að losa mig út úr ferðaþjónustubransanum. Ég prófað nánast alla keðjuna frá því að þrífa herbergi og taka móti gestum til þess að vera verkefnastjóri í tæknideild og skrifstofustjóri. Þessi grein er svo lifandi og skemmtileg og maður kynnist nýjum hlutum og nýju fólki nánast hvern einasta dag. Enginn dagur er eins í þessu svo leiði sækir aldrei að.“
Samvinna ferðaþjónustuaðila mikilvæg
Með þá miklu reynslu á bakinu í ferðaþjónustu sem Kristín býr yfir er ráð að spyrja hana út í sóknarfæri þeirrar greinar á Austurlandi. Allra síðustu árin hefur þung áhersla verið lögð á að auka vetrarferðamennsku og Kristín tekur heilshugar undir það.
„Það er engin spurning um að það er stærsta sóknarfærið á þessu stigi að mínu viti. Þó auðvitað megi fjölga ferðamönnum meira að sumarlagi þá er reyndin sú að margir þessara viðkomustaða staða, eins og Vök, eru alla jafna vel bókaðir yfir háannatímann á sumrin. Ef það tekst að fjölga ferðafólki utan þess tíma erum við komin á mjög góðan stað. Slíkt mun líka auðvelda frekari uppbyggingu og eða fjárfestingar í geiranum hér.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.