Austfirðingur ársins 2024 Höfundur: Gunnar Gunnarsson • Skrifað: 14. janúar 2025. Níu tilnefningar bárust að þessu inni í kjör Austurfréttar á Austfirðingi ársins 2024. Kosning er hafin og stendur út sunnudaginn 19. janúar. Austfirðingar ársins 2024 Aron Daði Einarsson, Egilsstöðum. Aron Daði, sem er 14 ára, lenti ásamt vini sínum í snjóflóði á skíðasvæðinu í Stafdal. Vinur hans grófst undir flóðinu. Aron brást skjótt við og fór berhentur að grafa upp vin sinn og fann hann. Berghildur Fanney Hauksdóttir Oddsen, Vopnafirði. Fanney tók árið 2020 við rekstri dagvöruverslunarinnar Kauptúns á Vopnafirði, sem er sú eina á staðnum. Slíkur rekstur er basl en Fanney hefur sýnt honum af eljusemi og gert Kauptún að skemmtilegum stað til að heimsækja. Birna Jóna Sverrisdóttir, Egilsstöðum. Birna Jóna hefur lagt mikið á sig til að ná árangri í sleggjukasti. Hún er í íslenska unglingalandsliðinu í frjálsíþróttum og tók þátt í fjórum alþjóðlegum mótum á síðasta ári, þar á meðal Evrópumóti U-18 ára og Norðurlandamóti U-20. Björgvin Karl Gunnarsson, Reyðarfirði. Björgvin Karl þjálfar knattspyrnulið FHL sem sigraði Lengjudeildina síðasta sumar og mun í ár spila í úrvalsdeild. Björgvin Karl tók við liðinu árið 2019 þegar það var enn í annarri deild þannig að undir hans stjórn hefur það unnið sig upp um tvær deildir. Hafdís Bára Óskarsdóttir, Vopnafirði. Fyrrum sambýlismaður Hafdísar er ákærður fyrir tilraun til manndráps eftir hafa ráðist á hana um miðjan október. Hafdís sýndi hugrekki með að segja frá reynslunni í viðtali hjá RÚV. Jens Garðar Helgason, Eskifirði. Jens Garðar hefur sem aðstoðarframkvæmdastjóri verið leiðandi í uppbyggingu fiskeldisfélagsins Kaldvíkur sem var skráð í íslensku kauphöllina í fyrra. Jens Garðar var síðan valinn oddviti Sjálfstæðisflokksins í kjördæminu og var kjörinn á Alþingi. Nelson Cartas, Seyðisfirði. Nelson starfar á hjúkrunarheimilinu Fossahlíð. Fyrir utan framlag sitt í vinnutíma gefur hann af frítíma sínum til skjólstæðinga þar til að gleðja þá. Að auki á hann til að skella sér í trúðabúning og skemmta bæði íbúum og börnum á Seyðisfirði. Hann sýnir einnig samstarfsfólki einstaka umhyggju og leggur sitt af mörkum til gera bæinn betri. Sigurgeir Svanbergsson, Eskifirði. Sigurgeir hefur, ásamt kærustu sinni Sóleyju Gísladóttur, staðið fyrir þremur sjósundum til styrktar góðgerðarmálum. Hann synti frá Flateyri til Önundarfjarðar, komst hálfa leið frá Akranesi til Reykjavíkur og í nóvember synti hann þvert yfir Reyðarfjörð til Eskifjarðar og safnaði þar 1,1 milljón fyrir Pieta-samtökin. Þórir Stefánsson og Guðrún Anna Eðvaldsdóttir, Djúpavogi. Þórir og Guðrún Anna eiga Hótel Framtíð og hafa rekið það í rúm 40 ár með miklum glæsibrag. Hótelið hefur haft jákvæð áhrif bæjarbraginn á Djúpavogi. Þjónusta hótelsins hefur ávalt verið til fyrirmyndar og starfsmenn þess sinnt störfum sínum með sóma. Kjósa