Austfirðingar vilja fá svör um Norðfjarðargöng

Vegagerðin kynnti í gær í Neskaupstað verkefnið Norðfjarðarvegur um Norðfjarðargöng. Á annað hundrað manns skrifuðu sig í gestabók sem lá frammi. Fólk virtist misánægt og flestir höfðu búist við að fá meiri upplýsingar og skýrari svör, enda uggandi eftir umræður síðustu daga um að líklega komi til frestunar á framkvæmdinni.

norfjarargng_vefur.jpg

Einn heimamanna kvaddi sér hljóðs og bað fólk um að fara heim og senda tölvupóst á samgönguráðherra og hvetja hann til að koma verkinu í framkvæmd. Það væri ekki síður atvinnuskapandi fyrir fólk á Austurlandi sem og annars staðar að koma svona verki af stað í fjórðungnum eftir uppganginn síðustu ár, í ljósi þeirrar lægðar sem er framundan. Hann benti meðal annars á að í austfirskum sveitafélögum og þá til dæmis á Fljótsdalshéraði, séu margir sem hafa haft atvinnu hjá verktakafyrirtækjum sem standi nú höllum fæti. Hann sagði jafnframt að Norðfjarðargöng væru í huga margra Norðfirðinga og annarra aðeins fyrsti hlutinn af svokölluðum Samgöngum í fjórðungnum.

 

Það var mál manna að fólk hefði verið leitt á kynningarfundinn á fölskum forsendum þar sem þar fengjust engin svör við hvort farið yrði í Norðfjarðargöng eða þeim frestað.

Hjá Vegagerðinni segja menn að meðan engin ákvörðun hefur verið tekin um frestun verkefnisins verði haldið áfram vinnu að undirbúningi þess og kynningin á Norðfirði í gær og í Valhöll Eskifirði í dag sé hluti af þeim undirbúningi.

 

Frummatsskýrsla um Norðfjarðarveg um Norðfjarðargöng er aðgengileg á heimasíðu Vegagerðarinnar www.vegagerdin.is.

Við þetta má svo bæta að Arnbjörg Sveinsdóttir þingmaður var í gær spurð á fundi á Egilsstöðum um hvort og hvenær stæði til að fara í frestun á Norðfjarðargöngum og hvort Austfirðingar ættu ekki rétt á að fá skýr svör þar um hið fyrsta. Svaraði hún því til að engar ákvarðanir hefðu verið teknar þar að lútandi, en ljóst væri að draga þyrfti saman seglin í framkvæmdum og hefðu Norðfjarðargöng meðal annars komið til tals í því samhengi.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.