Bátsferðir á Borgarfirði: Vildu frekar gera út á ferðamenn en fisk

Bræðurnir Hallur Ingi og Magnús Ingi Hallssynir fóru síðasta sumar að bjóða upp á ferðir um Borgarfjörð á flatbotna slöngubát, svokölluðum RIB-báti. Þeir höfðu áður gert út smábát á strandveiðar en seldu hann frá sér og skiptu um.

Leitin að hentugum bát, sá sem þeir keyptu tekur tíu farþega, tók nokkurn tíma. Þeir voru komnir á fremsta hlunn með að láta smíða fyrir sig eigin bát en fréttu þá af þeim sem þeir tóku í notkun síðasta sumar til sölu í Svíþjóð.

„Það skipti litlum togum að við vorum komnir þangað nánast sólarhring síðar. Báturinn var nákvæmlega það sem við vildum og keyptum við hann á staðnum og hann hefur reynst alveg frábærlega. Ótrúlega gaman að geta boðið upp á flotta afþreyingu hér við höfnina og við erum meira en sáttir við viðtökurnar. Það fer enginn súr frá okkur,“ segir Hallur.

Borgarfjörður er vinsæll ferðamannastaður, bæði er það einstakt landslagið sem dregur fólk þangað en líka lundinn í Hafnarhólmanum. Með ferðunum gefst gott færi að virða hann fyrir sér frá öðru sjónarhorni en venjulega.

Mikið er af honum í klettunum meðfram strandlengjunni út fjörðinn. Ekki er óalgengt að sjá fleiri dýr, svo sem seli, í návígi í siglingunni með Puffin Adventures út að Almenningsflesi, milli Borgarfjarðar og Brúnavíkur.

Bræðurnir við stjórn. Hallur er mestmegnis við stjórn á bátnum á meðan Magnús gætir að öryggi og leiðsegir um forvitnilega hluti á leiðinni.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.