Betra að læra að umgangast tæknina en banna hana

Netnotkun og samfélagsmiðlar voru aðalumræðuefni ungmennaþings Múlaþings í ár. Ungmennin gera sér grein fyrir að notkunin geti verið skaðleg en telja eðlilegra að bregðast við með leiðbeiningum en bönnum.

„Þetta eru málefni sem ungmenni hafa mjög sterkar skoðanir á. Það hafa margir kvartað yfir símalausum skólum, það er að farsímar séu bannaðir á skólatíma. Við vildum ræða málið víðtækara og komast að því hvaða áhrif ungmennunum þykja símarnir hafa á líf sitt,“ segir Karitas Mekkín Jónasdóttir, formaður ungmennaráðs Múlaþings og nemandi við Menntaskólann á Egilsstöðum.

Um 200 ungmenni úr ME og 8. – 10. bekkjum grunnskólanna á Egilsstöðum, Seyðisfirði, Djúpavogi, Brúarási og í Fellabæ sóttu málþingið.

Lítið rætt við nemendur áður en símar voru bannaðir


Bann við snjallsímanotkun hefur verið innleitt í grunnskólanna einn af öðrum. Nemendur hafa þó gagnrýnt að hafa ekki verið hafðir með í ráðum þegar þær ákvarðanir voru teknar. Í aðdraganda þingsins sendi ráðið út könnun á nemendur í skólunum. Þar var meðal annars spurt hvort símar ættu að vera leyfðir í skólum. 61,5% sögðu að þá ætti að leyfa, 16,2% studdu símabannið og 22,3% höfðu enga ákveðna skoðun.

Á þinginu var reynt að nálgast net- og símanotkun út frá mismunandi hliðum. Velt var upp hvað væri jákvætt eða neikvætt við notkunina, svo sem möguleikar á að afla sér þekkingar, afþreyingar og kynnast nýju fólki á móti fíknum, tímaeyðslu og óviðeigandi efni. Næst var rætt um áhrif á ólíka þætti daglegs lífs, svo sem félagsleg tengsl, andlega heilsu og svo framvegis. Í lokin var leitað að lausnum og spáð í hvernig framtíðin líti út.

Ungmennaráðsliðarnir segja jafnaldra sína meðvitaða um ákveðna fylgikvilla. „Fólk talar um að það „doomscrolli“ (fletti endalaust og stefnulaust niður samfélagsmiðla) eða að það ætli að prófa símalausa eða samfélagsmiðlalausa viku. Þau er talað um þetta hafi áhrif á námið, félagslífið eða sjálfsmyndina,“ segir Björg Gunnlaugsdóttir, úr ungmennaráði Múlaþings.

Þau gagnrýna hins vegar að brugðist sé við með að banna tækin. „Sterkasta skoðunin sem við höfum heyrt er að það þurfi frekar að kenna þeim að umgangast tæknina og nýta sér hana heldur en banna. Ef hún er bönnuð í skólanum þá nýta þau frekar tímann í hana eftir skóla,“ segir Karítas.

Út frá ummælum í könnuninni má lesa skiptar skoðanir: að símarnir trufli, séu nýttir í einelti eða að betra sé í skólanum því krakkarnir tali frekar saman eftir að þeir hafi verið bannaðir á móti því að þeir séu gagnlegir í náminu, veiti aðgang að sérfræðingum sem börnin geti rætt við um vandamál sem þau vilji ekki ræða við fullorðið fólk í nágrenninu eða hjálpi þeim sem ekki falla í hópinn að halda tengslum við félaga annars staðar.

Misjafnt hvernig kennarar bregðast við gervigreind


En það eru ekki bara símarnir sem eru til umræðu að þurfi að læra að lifa með. Hraðar framfarir í gervigreind hafa líka áhrif á skólastarfið. „Hún er orðin mjög vinsæl meðal nemenda til að aðstoða við námið. Það er misjafnt hvernig kennarar bregðast við henni. Sumir hvetja okkur til að reyna að fá hana til að vinna með okkur meðan aðrir eru mjög á móti henni,“ segir Karitas.

„Ég hef verið sakaður um að nota gervigreind þegar ég var ekki að nota hana. Mér finnst orðið nauðsynlegt að nota hana við að skrifa ritgerðir. Hún hjálpar mér til að skila betri vinnu. Ég læt hana ekki skrifa fyrir mig heldur nota hana til að fá hugmyndir og víkka sjóndeildarhringinn. Ég hef takmarkaða yfirsýn yfir hvernig áhugavert er að nálgast viðfangsefnið og þar hjálpar hún mér,“ segir Grímur Ólafsson, úr ungmennaráði Múlaþings.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.