Báðir erlendu leikmennirnir fara

Jerry Cheeves og Ben Hill, erlendu leikmennirnir tveir sem leikið hafa með körfuknattleiksliði Hattar í vetur, fara heim um jólin og koma ekki aftur til liðsins eftir áramót. Þeir óskuðu eftir að fara vegna persónulegra ástæðna.

 

ImageStefán Bogi Sveinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Hattar, staðfesti þetta í samtali við Austurgluggann í morgun. „Þeir óskuðu báðir eftir að fara heim af persónulegum ástæðum. Þetta eru mjög góðir leikmenn og Ben trúlega einn besti leikmaður sem spilað hefur með okkur en persónulegir hagir ganga fyrir körfuboltanum.“
Stefán Bogi segir stjórn deildarinnar vera að skoða hvort aðrir erlendir leikmenn verði fengnir í staðinn.

Ben, sem er frá Nýja-Sjálandi, lék með Hetti í fyrra. Hann hefur verið máttarstólpi liðsins, skorað 20,8 stig að meðaltali í leik og hirt tíu fráköst. Þrátt fyrir að vera miðherji og aðallega undir körfunni er Ben afar öflug þriggja stiga skytta. Önnur íslensk félög, meðal annars Njarðvík, sýndu honum áhuga í sumar en hann valdi að vera áfram hjá Hetti.
Jerry er bandarískur framherji sem kom í haust frá Írlandi. Hann skoraði 21 stig að meðaltali í leik í haust.

Höttur á tvo leiki eftir fyrir áramót, báða á útivelli. Annars vegar gegn Keflavík í bikarkeppninni á fimmudagskvöld klukkan 19:15, hins vegar á Ísafirði gegn KFÍ á laugardag.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.