Bjartsýni um matvælavinnslu á Breiðdalsvík

Fullvinnsla matvæla fer nú fram í frystihúsinu á Breiðdalsvík á vegum félagsins Festarhalds. Framleiðslan er innbakaður fiskur í orly-deigi, bollur, fiskborgarar og naggar. Hráefnið er ferskfiskur og afskurður. Framleiðslan er að komast á fullan skrið og starfa átta starfsmenn við vinnsluna, flestir í 75% starfi. Stefnt er að vinnslu úr 30 til 40 tonnum af hráefni á mánuði en undanfarið hefur verið unnið úr 10 til 15 tonnum.

breidalsvk_vefur.jpg

Markaður er einkum innanlands enn sem komið er, en unnið að þróun viðskiptasambanda erlendis. Endurnýjað útflutningsleyfi fæst væntanlega á frystihúsið á næstu dögum.

 Vænlegt tækifæri  

Matvælavinnsla hófst í frystihúsinu þegar Fossvík ehf. rak húsið, en fyrirtækið hefur nú lagt niður rekstur þar. Sigurjón Bjarnason á Egilsstöðum kom að málum seint síðasta sumar og var þá unnin rekstraráætlun, félagið Festarhald stofnað og leitað að vænlegum fjárfestum í verkefnið. Eigandi öflugs vélakosts í frystihúsinu var á þessum tíma að leita að nýjum samstarfsaðila og hefði hugsanlega farið með vélarnar af staðnum ef ekki hefði komið til áhugi Sigurjóns á málinu.

,,Mér leist það vel á rekstrarforsendur eins og þær voru settar  upp að ég vildi skoða þetta áfram,“ segir Sigurjón. Hann hefur einnig umsjón með eignum Sláturfélags Austurlands, sem á sláturhús við hlið frystihússins á Breiðdalsvík og er ætlunin að nýta það til frekari matvælaframleiðslu. ,,Við gerðum aftur viðskiptaáætlun í desember, varlega áætlun sem byggir á þeim markaði sem við teljum okkur hafa í hendi innanlands og reiknuðum með að senda einn gám á mánuði út fyrir landsteina. Okkur sýnist að þetta eigi að geta gengið býsna vel, en ég tek fram að langt er frá því að við séum að ná því í dag. Ef hugmyndir okkar um erlendan markað ganga eftir erum við þó að tala um mun betri afkomu en áætlunin gerði ráð fyrir.“

  Unnið með Matís  

Hann segir mál ganga heldur hægt en þó hafi strax í byrjun náðst ágætur samningur við Byggðastofnun um leigu á frystihúsinu. ,,Verið er að endurbæta húsið. Raflagnir voru orðnar lélegar og kyndingin geispaði golunni í desember. Byggðastofnun hefur komið að fjármögnun endurbóta á húsinu. Þá er unnið að þróun uppskrifta og ýmissa nýjunga og í undirbúningi mjög spennandi verkefni með Matís.“

Breiðdalshreppur hefur sýnt málinu áhuga og velvild og vill kaupa hlutafé fyrir 7,5 milljónir gangi heildarfjármögnun eftir, enda ríkir hagsmunir fólgnir í að halda störfum í byggðarlaginu.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.