Bjóða gestum að skoða nýtt félagsheimili BRJÁN

Blús-, rokk- og jazzklúbburinn á Nesi (Brján) verður annað kvöld með opið hús í nýju félagsheimili sínu að Hafnarbraut 22 í Neskaupstað, þar sem verslunin Tónspil var áður til húsa. Þar hefur verið komið upp æfinga- og upptökuaðstöðu auk tónleikasalar.

Það var SÚN sem keypti húsið árið 2022, um það leyti sem Tónspil hætti, til að skapa þar aðstöðu fyrir BRJÁN. Húsnæðið hefur síðan verið innréttað fyrir nýtt hlutverk.

„Við erum búin að koma upp myndarlegri æfingaaðstöðu á efri hæðinni, sem er einkum ætluð ungum hljómsveitum. Við erum með eitt stórt herbergi þar og síðan tvö minni, sem tónlistarfólk getur leigt. Þar er líka eldhúskrókur eða fundaraðstaða og herbergi til upptökustjórnar.

Við erum að útbúa æfingaaðstöðuna þannig að þar sé hægt að taka upp og erum búin að kaupa mest af þeim búnaði sem þarf.

Á neðri hæðinni verður tónleikasalur. Við höfum keypt í hann gott ljósakerfi og hljóðkerfi, sem jafnframt er hægt að nota til að taka upp tónleikana. Við viljum að þetta verði aðlaðandi aðstaða fyrir tónlistarfólk því við ætlum að safna tónleikum inn í húsið. Við erum móttækileg fyrir fletum og höfum bókað nokkra í sumar.

Flestir tónleikar á Austurlandi eru sóttir af 10-50 manns.Í salnum fer vel um 60 manns sem sitja við lítil borð,“ segir Guðmundur Höskuldsson, formaður BRJÁN.

BRJÁN byggir félagsstarfið á nýjum stað


Hann vonast til að nýtt húsnæði verði félagsstarfinu lyftistöng en það hefur liðið fyrir það að klúbburinn hefur verið á hrakhólum í að verða tíu ár. „Við áttum aðstöðu sem kallaðist Blúskjallarinn og var á Nesgötu. Við lentum í ítrekuðum vandræðum í stórrigningum því frárennsliskerfi bæjarins ræður ekki við þær á þessu svæði og því skemmdist hjá okkur búnaður.

Við seldum húsnæðið og vorum svo um tíma í Stúku Egils Rauða í Egilsbúð, þar til hún var tekin undir félagsmiðstöðina Atóm. Eftir það höfum verið aðstöðulaus þar til SÚN keypti húsnæði Tónspils, gagngert til að efla tónlistarstarf í bænum,“ útskýrir Guðmundur.

Eftirvænting í bæjarfélaginu


Forsvarsfólk klúbbsins hefur leitt endurbæturnar á húsnæðinu en Guðmundur segir BRJÁN njóta mikils velvilja í Neskaupstað. „Þetta hefur verið mikil vinna sem margir hafa komið að, bæði með fjárstyrkjum og annarri aðstoð. Okkur virðist talsverð stemming í bæjarfélaginu og vonumst til að sjá sem flesta á morgun. Ég held að íbúar kunni að meta að hér verði reglulega haldnir tónleikar í góðum aðstæðum.“

Húsið er opið frá 19:30 á morgun, fimmtudag og verður það til klukkan 22:00. Frá klukkan 20:00 verður lifandi tónlist á neðri hæðinni. Þar koma meðal annars fram Hrafna Hanna, Hreinn Stephensen, Þór Theodórsson og Höskuldur Valdimarsson. Síðust verður hljómsveitin Chögma, sem einnig spilar með Jónasi Sig á tónleikum í Egilsbúð á föstudagskvöld. Þeir tónleikar eru haldnir til styrktar BRJÁN.

Mynd: Aðsend

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.