Bjórinn Naddi fékk fyrstu verðlaun í alþjóðlegri keppni

Fjórir bjórar frá KHB Brugghúsi á Borgarfirði hlutu nýverið verðlaun í alþjóðlegri samkeppni, London Beer Competition, þar af fékk lagerbjórinn Naddi gullverðlaun. Aðstandendur brugghússins segja viðurkenningarnar veita þeim fullvissu um að þeir séu á réttri leið.

KHB brugghús sendi sem fyrr segir Nadda sem fékk gullverðlaun í flokki alþjóðlegra lagerbjóra. Jóla-Naddi og Borghildur fengu silfurverðlaun í sama flokki. Gellivör fékk silfurverðlaun í flokki IPA-bjóra.

Gullverðlaun eru veitt bjórum sem fá 90 stig eða meira meðaltali. Tveir aðrir bjórar náðu þeim árangri í flokki Nadda, annar þeirra náði 92 stigum í heildina eins og Naddi en hinn fékk 90 stig.

Skorið samanstendur af þremur þáttum: útliti umbúða þar sem Naddi fékk 90 stig, verðgildi sem skilaði bjórnum 92 stigum og bragði þar sem hann fékk 97 stig. Dómarar vita ekki hvaða bjór þeir smakka. Silfurbjórarnir eru með 76-89 stig. Gellivör fékk 88 stig, Jóla-Naddi 83 og Borghildur 82.

Vildu alþjóðlegan samanburð


Helgi Sigurðsson, annar eigenda KHB Brugghúss, segir að síðustu tvö ár hafi það sent gin sitt og landa í systurkeppni, London Spirits Competition. Þau hafi þar náð ágætum árangri, ginið fengið silfurverðlaun bæði árin og landinn bronsverðlaunum í fyrra. „Okkur langaði síðan að sjá hvar bjórinn okkar stæði í alþjóðlegum samanburði.“

Þetta er í sjöunda sinn sem bjórkeppnin er haldin. Hún er einkum ætluð þeim sem vilja ná til heildsala sem aftur selja á veitingahús, krár og í verslanir í Lundúnum. „Það er virkilega gaman að fá svona alþjóðleg verðlaun og þau veita okkur öllum hjá KHB Brugghúsi hvatningu til að halda áfram. Þau segja okkur að við erum á réttri leið og gefa okkur meira sjálfstraust við það sem við erum að gera. Vonandi vekur þetta líka athygli á bjórnum okkar.“

Þótt keppnin sé alþjóðleg þá er útrás borgfirsku bjóranna ekki yfirvofandi. „Við erum mest að horfa á innanlandsmarkaðinn, að ná fótfestu víðar. Við erum ekki á leið í alþjóðlega sölu þótt þetta veit hjálp þegar að henni kemur.“

Þá fékk Naddi einnig fyrstu verðlaun í sínum flokki á vefnum Untappd, þar sem notendur gefa bjórum einkunnir. „Það er greinilegt að hann leggst vel í fólk,“ segir Helgi.

Tékknesk áhrif


KHB Brugghús hefur starfað frá árinu 2020 en bjórar þess komu í Vínbúðirnar og almennan markað í lok árs 2021. „Við leggjum áherslu á gæðahráefni og kaupum það frá Tékklandi, frá litlu fjölskyldufyrirtæki sem búið er að vera starfandi í yfir hundrað ár. Við vitum því að gæðin eru í lagi. Vinnum einnig náið með tékkneskum bruggmeisturum með mikla reynslu og Þorsteinn Brandsson, yfirbruggmeistari KHB, hefur náð góðum tökum á faginu og er með allt á hreinu hvað þetta varðar. Allir bjórarnir okkar eru ferskvara, ógerilsneyddir og án viðbætts sykurs og án rotvarnarefna.“

Brugghúsið sendi nýverið frá sér sumarbjórinn Snotru, hveitibjór með appelsínu og kóríander. Þá kemur í dag í verslanir nýr bjór, Marín, dökkur porter. Eins og aðrir bjórar KHB Brugghúss er hann nefndur eftir vættum Borgarfjarðar en Marín er álfkona í Álfaborginni.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.