Bílslys í Reyðarfirði
Í morgun um kl. 08 varð bílslys nærri Högum í Reyðarfirði. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Eskifirði voru þrír farþegar í bílnum, sem valt. Lögregla vildi ekki gefa frekari upplýsingar um atburði, en samkvæmt heimildum Austurgluggans var fólkið flutt á Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað með tveimur sjúkrabifreiðum. Slökkvilið Fjarðabyggðar sendi sjúkrabíla og tækjabíl á vettvang, þar sem farþegi var fastur í bifreiðinni sem valt. Þegar til kom þurfti þó ekki að beita klippum til að ná honum út. Ekki hafa fengist upplýsingar um líðan farþeganna, en þegar síðast fréttist var búið að senda einn þeirra með sjúkraflugi til Reykjavíkur til aðhlynningar. Lögregla hefur málið til rannsóknar.