Boðið heim í Fljótsdalinn á Beint frá býli deginum á sunnudag

Á sunnudaginn kemur halda samtökin Beint frá býli í annað sinn sérstakan Beint frá býli dag austanlands þar sem gestum og gangandi gefst kostur að gera sér glaðan dag í sveitinni og kynnast framleiðslu og vörum smáframleiðenda í fjórðungum.

Dagur þessi var fyrst haldinn á Austurlandi fyrir sléttu ári síðan þegar fjölskyldan að Lynghóli í Skriðdal bauð gesti velkomna og tókst það mætavel þrátt fyrir að veðurguðirnir þá hafi sýnt takmarkaðan samstarfsvilja.

Nú fer viðburðurinn hins vegar fram á bænum Egilsstöðum innst í Norðurdal Fljótsdalshrepps þar sem Ann- Marie Schlutz hefur um nokkurra ára skeið framleitt vörur undir nafni Sauðagulls með góðum árangri. Þrettán aðrir smáframleiðendur matvæla á Austurlandi leggja henni lið þann dag og kynna gestum framleiðslu sína.

Ekki nóg með að hægt verði að bragða og eða kaupa kynstrin öll af gómsætum mat úr héraði heldur bjóða ábúendur upp á leiðsögn um fjárhúsið sem er einstakt fyrir þær sakir að þar er mjaltaaðstaða fyrir sauðfé. Kaffi og kökur vitaskuld í boði líka aukreitis auk skemmtunar fyrir börnin.

 Við bæinn er líka að finna hið þekkta Óbyggðasetur Íslands sem mjög er vert að skoða og aldrei er neikvætt að staldra við á Skriðuklaustri sem er í leiðinni til og frá.

Húllumhæið hefst klukkan 13 á sunnudaginn kemur og stendur í þrjár klukkustundir. Mynd Visit Austurland

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.