Börnin best í að kortleggja gönguleiðirnar
Nemendur í Breiðdals- og Stöðvarfjarðarskóla kortlögðu í vor gönguleiðir, meðal annars frá heimilum að skólum, í byggðarlögunum. Krakkarnir lærðu grunnatriði í kortagerð en afraksturinn nýtist vel til að sjá hvar bæta þurfi aðbúnað gangandi vegfarenda.„Þau nota þessa innviði mest og þekkja þá því best. Þess vegna eru þau best í að kortleggja þá,“ segir María Helga Guðmundsdóttir hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Breiðdalsvík. Hún segir að stígarnir séu tvenns konar, annars vegar þeir sem séu skipulega búnir til og hins vegar þeir sem myndast hafi í gegnum tíðina.
Þekking barnanna var mikilvæg þegar kortlagningin hófst í apríl því þá var allt á kafi í snjó. Þau vissu hins vegar hvar slóðirnar lágu. „Ég hélt við þyrftum að gera þetta blindandi en þau vissu allt þannig þetta var ekkert vandamál.
Krakkarnir fengu mismunandi verkefni eftir skólastigum. Yngstu krakkarnir fundu hvar nemendur byggju auk þess sem létu vita hvaða aðra uppáhaldsstaði þau ættu í byggðarlögunum. Börn á miðstigi sá meira um kortlagningu göngustíganna sjálfra. Til þess notuðu þau meðal annars GPS tæki og stígarnir voru teiknaðir inn á loftmyndir.
Unglingastigið tók gögnin saman og unnu þau í landupplýsingakerfi, svo sem hnitsetningu á kort, teikna hús, götur og annað eftir loftmyndum, litakóða mannvirki á kort og klára endanlegu hin kort, í samstarfi við Maríu Helgu og kennara.
Vantar gangstéttir og gönguleiðir
En börnin kortlögðu ekki bara það sem er til staðar, heldur líka það sem vantar. „Þau gera sér líka grein fyrir hvar vantar stíga. Síðan vantar ýmislegt annað. Á báðum staöðum vantar gangstéttir. Hér á Breiðdalsvík sér maður foreldra með kornabörn í barnavögnum úti að ganga á götunum því það vantar gangstéttir.
Ég er stundum hissa á að ekki verði slys miðað við umferðarþungann hér. Börnin eru mjög dugleg að vera úti og þau eru alls staðar að leika sér. Fólk sér svona hluti þegar það velur sér búsetu, að það sé aðgengi fyrir barnavagninn eða að barnið geti hjólað í skólann án þess að vera á umferðargötu eða ljós meðfram gönguleiðum.
Á Stöðvarfjörð vantar meira af eiginlegum gönguleiðum. Stígakerfið þar er slitróttara. Frá kirkjugarðinum og inn að Stöð er mjög flottur göngustígur en síðan er engin tenging frá kirkjugarðinum og inn í bæ. Þá skapar vanda, á að keyra inn að kirkjugarði og ganga þaðan eða ganga á þjóðveginum. Þetta eru hlutir sem börnin sjá og átta sig á.
Eins eru víða hentistígar, þar sem þarf að hoppa yfir læk eða annað slíkt. Þau eru sérfræðingarnir. Eitt af því sem við unnum með í verkefninu var að valdefla þau, að þau geri sér grein fyrir að þau hafi mikla þekkingu, að hún sé þýðingarmikil og það hafi áhrif að þau setji hana niður á blað. Þess vegna fengum við bæjarstjórann til að koma á kynninguna,“ segir María Helga.
Þorrablótin góð til að þrýsta á um úrbætur
En það eru fleiri árangursríkar leiðir til að benda á hvað þurfi að gera heldur en skólaverkefni. „Við höfum komist að því að smá glens á þorrablótum getur kveikt á stjórnsýslunni. Fyrir blótið í fyrra var gert myndband þar sem við sendum barn í skólann búið út með hjálm, ljós og hnjáhlífar. Það datt vitaskuld mörg þúsund sinnum á leið í skólann. Í vor voru settir upp ljósastaurar á gönguleiðunum, sem eru mikil bragarbót.“
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.