Býflugnabændur smíða hús til að verja búsmalann fyrir vetrarhörkum
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 04. apr 2025 14:30 • Uppfært 04. apr 2025 14:42
Félagar í Býflugnafélagi Austurland (BÝFA) hafa í vikunni verið á námskeiði í smíði svokallaðra Lazutin-húsa sem vonast er til að dragi úr vetrarafföllum á flugunum. Talsverður áhugi er á ræktuninni á Austurlandi.
Ingvar Sigurðsson, uppalinn Norðfirðingur sem lengst af hefur búið í Hveragerði, sem leitt hefur vinnusmiðjuna í vikunni. Hann fór að lesa sér og komst á snoðir um Lazutin-húsin eftir að hafa misst stofn sinn í vetrarhörkum fyrir nokkrum árum. Að minnsta kosti hjá honum hafa þau gefið góða raun. Húsin draga nafn sitt af Fedor Lazutin, rússneskum býflugnaræktanda sem varð sjálfur fyrir afföllum og komst á snoðir um hvernig forfeður hans í Sovétríkjunum hefðu farið að.
Lazutin-húsin, eða réttara sagt býkúpurnar, eru láréttar, gerðar úr timbri og einangraðar hér með með steinull. Hið náttúrulega byggingarefni og að þau eru talsvert dýpri heldur en aðrar býkúpur sem notaðar eru hérlendis, eru lykilatriðin fyrir því að vel takist til við að verja býflugurnar fyrir vetrinum. „Þetta er líkara því að þær séu í tréholi,“ útskýrir Ingvar.
Flugurnar flögra um til að halda loftinu heitu
Þegar kólnar í veðri þjappa flugurnar sér saman utan um drottninguna til að verja hana. Ingvar útskýrir einnig að mikilvægt sé að verja flugurnar raka, þær krókni þegar þær blotni en einnig að tryggja þeim rými til að fljúga um og ákveðið loftflæði því þannig geti þær sjálfar búið til hita í rýminu.
Þess vegna er hver býkúpa um 80 sm há, með þaki. Þær eru síðan 60 metra breiðar, eins og önnur býflugnabú hérlendis en það er breiddin á römmunum sem notaðir eru til að safna hunanginu. Loks eru býkúpurnar um 120 sm langar en skipt í tvennt milli tveggja búa. Í voru búa um 50-60 þúsund flugur yfir sumarið en um 10 þúsund yfir veturinn. Á haustin deyja sumarflugurnar en harðgerðari vetrarflugur taka við.
Sæunn Vigdís Sigvaldadóttir, formaður BÝFA, segir að það að halda flugunum á lífi allt árið styrki verulega íslenska ræktun, en áætlað er að vetrarlifun sé almennt 50-83%. Þá þurfi ræktendur ekki lengur að flytja inn flugur í stórum stíl á vorin, eins og gjarnan er gert sem aftur auki áhugann.
Félagsskapur austfirskra býflugnabænda
Áhugi á býflugnarækt á Íslandi hefur farið hratt vaxandi og Austurland er engin undantekning. Sæunn hóf sína ræktun á Egilsstöðum árið 2023 eftir að hafa farið ásamt fleirum á námskeið til Reykjavíkur. Hún og annar úr hópnum sóttu síðan námskeið í Englandi í fyrra.
BÝFA varð til í byrjun þessa árs og í vikunni hafa um tíu ræktendur, allt suður frá Hornafirði og upp á Hérað, tekið þátt í vinnusmiðjunni. Hún var haldin með stuðningi Múlaþings, sem lagði til Samfélagssmiðjuna, oft þekkta sem Gamla Blómabæ. Sæunn segir að smíðin hafi vakið athygli og það margir sýnt áhuga að forsenda virðist til að halda fleiri slíkar.
Hún segir mikilvægt fyrir býflugnabændur að hafa stuðning hver af öðrum. „Býflugnabændur af Suðurlandi geta ekki stokkið til okkar þegar vantar aðstoð og þess vegna stofnuðum við okkar eigið félag þar sem við hjálpum og styðjum hvert annað.“
Ísland verði sjálfbært í býflugnaræktun
Sæunn og Ingvar segja að þótt býflugnaræktunin sé hjá flestum enn aðeins áhugamál þá séu tekjur af ræktuninni að aukast. Hunangið sé vinsælt meðal heimafólks og ferðafólks en erlendis séu stundaðar miklar rannsóknir á gagnsemi afurða ræktunarinnar. Á Norðurlöndunum og víðar er verið að kanna gagnsemi býflugnaeiturs í lækningaskyni.
Til að byggja upp greinina sé mikilvægt að sem stærstur hluti stofnsins lifi á milli ára. „Með betri vetrarlifun geta bændur haft þetta sem aukabúgrein, ef þeir eru með ræktun sem hentar með“, segir Ingvar. „Það kostar sitt að byrja en við höfum fengið styrk úr Uppbyggingarsjóði Austurlands til að gera Íslands sjálfbært í ræktuninni og þetta er hluti af því,“ segir Sæunn að lokum.