Dagskráin aldrei verið viðarmeiri á Skógardeginum mikla

Dagskrá Skógardagsins mikla, sem undanfarin ár hefur verið haldin hátíðlegur í Hallormsstaðaskógi, verður óvenju viðamikil að þessu sinni. Reyndar svo viðamikil að nánast er hægt að tala um Skógardagana miklu.

Hátíðin hefur hingað til alltaf staðið í einn dag en í tilefni af því að 20 ár eru nú liðin frá því að fyrsti Skógardagurinn mikli var haldinn verður um sérstaka upphitun að ræða síðdegis á föstudegi áður en formleg hátíðin sjálf fer fram degi síðar. Hátíðin nú sem endranær í boði Félags skógarbænda á Héraði og Fjörðum auk Lands og Skóga.

Landsliðspylsa og lagakeppni

Dagskráin upphitunardaginn á föstudag lítt síðri en aðaldaginn því ekki aðeins verður landsliðspylsa kjötiðnaðarmanna kynnt og seld heldur og stígur tónlistarfólk á svið og skemmtir fólki áður en stóra stundin þann dag byrjar. Þar um að ræða tíu keppendur í sérstakri lagakeppni um allra fyrsta Skógardagslagið. Allir keppendur flytja sín lög áður en dómnefnd sker upp úr um hvaða lög verðskuldi að fara áfram í þeirri keppni. Dagskráin á föstudeginum hefst klukkan 17.30 og stendur aðeins fram á kvöldið.

Laugardagur til lukku

Meginhátíðin hefst svo stundvíslega á hádegi á laugardag og þá með fyrri hluta hinnar vinsælu skógarhöggskeppni auk þess sem Náttúruskólinn bryddar upp á ýmsu skemmtilegu fyrir smáfólkið. Klukkustund síðar hefst svo dagskráin í Mörkinni með skemmtidagskrá á sviði með þekktum listamönnum og ein rúsínan í pylsuendanum að þar ráðast líka úrslitin í keppninni um Skógardagslagið. Í kjölfarið er keppt í lokagreinunum skógarhöggsins og sigurvegarinn krýndur áður en gestum verða boðnar ýmsar veitingar í boði Félaga nautgripabænda og sauðfjárbænda á Héraði og Fjörðum auk þess sem lummur, kaffi og pylsur verða á boðstólnum. Enginn skal fara svangur frá staðnum.

Gera gott betra

Að sögn Jóns Ásgeirs Jónssonar hjá Líf í lundi, sem heldur utan um dagskrá Skógardagsins alls staðar, var lögð sérstök rækt við hátíðina austanlands þetta árið sökum afmælisins en sérstakur skógardagur af einu eða öðru taginu fer fram á laugardaginn kemur afar víða um landið.

„Þetta er viðameira en verið hefur en það er ástæða til enda hefur þessi hátíð tekist mjög vel undanfarin og sífellt fleiri gestir sem við höfum tekið á móti. Vonandi verður framhald þar á. Það er heldur ekki útilokað á þessari stundu að fleiri listamenn taki þátt í þessu með okkur þannig að dagskráin verði enn stærri en nú er. Upplýsingar um slíkt má bæði finna á vef Skógardagsins mikla á Facebook og á vefnum Skógargátt.“

Jón Ásgeir segir að í upphafi hafi verið lagt upp með að aðeins yrði um einn dag að ræða nú sem fyrr en það hafi lífrænt þróast í að prófa að lengja hátíðina yfir á föstudag.

„Það er að mörgu leyti heppilegra að hafa þetta lengri viðburð. Dreifa þannig viðburðum aðeins meira og gefa gestum tækifæri að slaka líka á í skóginum og ná að njóta bæði hátíðar og dvalarinnar sjálfrar.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.