Dómnefnd lengi að úrskurða um sigurvegara Stóru upplestrarkeppninnar í Fjarðabyggð
Eftir rúmlega fjögurra mánaða undirbúning í öllum 7. bekkjum grunnskóla Fjarðabyggðar var lokahnykkur Stóru upplestrarkeppninnar haldin í Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði í gærdag. Tók það dómnefnd langan tíma að komast að niðurstöðu um hver verðskuldaði sigur í keppninni.
Allnokkur hópur fólks fylgdist með þeim tólf ungmennum sem komust í úrslitakeppnina í gær en áður hafði farið fram undankeppni í öllum grunnskólunum í Fjarðabyggð en keppni þessi fer fram víða um landið.
Henni sem fyrr ætlað að þjálfa nemendurna í upplestri á íslensku máli og þar skipta þættir eins og raddstyrkur, túlkun, framkoma og tenging við áhorfendur máli. Var úr þessu skorið með því að allir lásu fyrst upp úr bókinni Drauminum eftir Hjalta Halldórsson og í kjölfar þess úr tveimur mismunandi ljóðum.
Nemendurnir stóðu sig það vel að formaður dómnefndar sagði hafa verið afar vandasamt að velja þeirra á milli. Niðurstaðan varð þó á endanum sú að í fyrsta sæti endaði Óttar Eiríksson úr Eskifjarðarskóla, í öðru sæti Svavar Óli Garðarsson frá Fáskrúðsfjarðarskóla og í því þriðja Emilía Ingólfsdóttir sem keppti fyrir hönd Grunnskóla Reyðarfjarðar.
Fengu allir keppendur blóm og gjöf auk sérstakra verðlauna fyrir efstu sætin en þau afhenti Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri Fjarðabyggðar.
Sigurvegararnir, aðrir keppendur auk dómnefndar og bæjarstjóra stilltu sér upp í myndatöku í lok keppninnar þetta árið. Mynd AE