Dularfullt sæskrímsli markar upphaf heljar menningarveislu í Fjarðabyggð

Togari úti fyrir Austurlandi fékk stórt, dularfullt og áður óþekkt sæskrímsli í troll sitt og þurfti í kjölfarið aðstoð við að komast til lands á Eskifirði. Á bakkanum við Vélaverksmiðjuna geta íbúar og gestir á slaginu klukkan 17 á morgun vitnað þetta mikla skrímsli, sem hugsanlega á rætur að rekja í þjóðsögurnar, með eigin augum.

Það er með þeirri stóru sýningu Sæskrímslin sem menningar- og listahátíðin Innsævi hefst þetta árið í Fjarðabyggð. Sú þegar orðin ein viðamesta menningarhátíð landsins þó þetta verði aðeins í þriðja sinn sem hún er haldin.

Að vitna skrímsli er vafalítið góð skemmtun en þeir sem eldri eru geta haldið skemmtuninni áfram í nágrannabænum Neskaupstað langt fram á annað kvöld þar sem Love Guru skemmtir í Egilsbúð og Nonni Clausen í kjölfarið í Beituskúrnum.

Ekki tekur verra við eftir morgundaginn því eitthvað verður á boðstólnum daglega í kjölfarið. Viðburðirnir vægast sagt fjölbreyttir: Tindrandi barnasýning á Stöðvarfirði, Pressuð flóra Íslands á Fáskrúðsfirði eða hugleiðsluþungarokk með hljómsveitinn Osme svo aðeins þrjú dæmi séu tekin.

Alls munu íbúar og gestir geta sótt rúmlega 30 mismunandi listviðburði í sveitarfélaginu næstu vikurnar en hátíðin stendur linnulaust yfir frá og með morgundeginum og fram til 20. júlí og er viðburðunum skipt milli bæjarkjarna sveitarfélagsins. Í ofanálag við skipulagða dagskrá geta fyrirvaralaust bæst við pop-up viðburður hvar sem er en tilkynnt er um allt slíkt á fésbókarvef Innsævis. Þar má líka finna greinargóðar upplýsingar um öll dagskráratriði næstu vikurnar.

Ókeypis er á alla viðburði Innsævis en 2.500 króna aðgangseyrir er að tónlistarviðburðum fyrir fullorðna en áfram frítt á þá fyrir börn og ungmenni undir sextán ára aldri.  

Er sæskrímslið eitt síns liðs eða eru þau mörg? Líkast til þarf að gera sér ferð niður að sjó á Eskifirði síðdegis á morgun til að fá svarið við því. Mynd Innsævi

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.