Dýrin á við þrjá til fjóra stuðningsfulltrúa

Nemendum í Brúarásskóla stóð síðasta skólaár til boða valfag um dýr þar sem ýmist var farið í heimsókn á sveitabæi í nágrenninu eða að gestir komu með sérstök dýr í skólann.

Þórey Eiríksdóttir, umsjónarkennari miðstigs, segir vel hafa tekist til og lýsir því að dýrin jafnist á við þrjá til fjóra stuðningsfulltrúa.

Brúarásskóli stendur í Jökulsárhlíð og þangað sækja einkum nemendur úr hlíðinni, Hróarstungu og af Jökuldal. Þess vegna hljómar kannski skringilega að nemendur úr sveitum þurfi sérstaklega að kynnast dýrum. Málið er ekki svo einfalt.

„Raunin er í Brúarásskóla að það er sennilega ekki nema um helmingur nemenda sem kemur úr sveitum hér í kring. Helmingur þeirra býr í þéttbýlinu á Egilsstöðum eða Fellabæ svo það er stór hluti nemenda sem ekki hafa reynslu af því að vera kringum dýr af neinu tagi.

Undanfarin ár höfum við verið með svona gæludýraval og reynslan af því hefur verið afar góð svo þetta í vetur var bara útvíkkun á því fyrirkomulagi. Í vetur höfum við til dæmis farið í heimsókn í hesthús, fengið að kemba og farið á bak, við höfum líka farið í sérstakt geitajóga og fengið að vita hvernig róbótafjós virka. Þó margir nemendur þekki fjós mætavel er nokkur fjöldi sem aldrei hefur komið á slíkan stað, aldrei mokað flór eða neitt slíkt. Það er ákveðin lífsreynsla fyrir þau mörg.

Að mínu viti er þetta að hafa töluvert jákvæð áhrif á krakkana. Þau kynnast því hvað það er indælt að njóta samvista við hin og þessi dýr og hvað slökun í kringum dýrin getur verið dýrmæt reynsla.“

Í Brúarásskóla hefur lengi verið utandyra við skólann sérstakur dýrakofi þar sem hænur og naggrísir njóta samvista vandræðalaust. Þar fjölgar nemendunum stöðugt sem hafa það eitt á stefnuskránni í frímínútum að hlaupa í kofann til að sjá dýrin og njóta samvistanna í augnablik á milli kennslustunda.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.