„Ég vildi verða eins góður kennari og ég get orðið“

Ania Czeczko, sem fædd er í Póllandi, lauk nýlega kennaraprófi frá Háskóla Íslands og starfar sem kennari á Djúpavogi. Hún segir að ástríðan fyrir því að kenna hafi knúið hana áfram í gegnum krefjandi nám, með stuðningi frá fjölskyldu og samstarfsfólki.

Krefjandi háskólanám á íslensku


Ania hóf störf í Djúpavogsskóla árið 2020 og ákvað fljótlega að fara í kennaranám. Hún valdi meistaranám (MT-nám) sem krefst ekki lokaritgerðar en er samt sem áður krefjandi. „Fyrsta árið var erfitt, sérstaklega að venjast akademísku íslenskunni. Ég var ekki viss um að ég gæti skrifað ritgerðir,“ segir hún og nefnir að maður hennar hafi veitt henni ómetanlegan stuðning.

Þrátt fyrir erfiðleikana lærði hún mikið og varð öruggari með hverju ári. „Síðasta árið var léttast. Ég lærði bæði í áföngunum og bætti íslenskuna mína mikið,“ bætir hún við.

Pólskukennsla í Djúpavogsskóla


Skólaárið 2022-23 átti Ania frumkvæði að því að kenna pólsku í Djúpavogsskóla. Hún segir að nemendur hafi verið áhugasamir, þrátt fyrir að mörg þeirra hafi viljað byrja á ljótum orðum. „Við komumst yfir það og síðan gekk þetta mjög vel. Það var skemmtilegt að heyra þau reyna að tala við aðra pólska starfsmenn skólans,“ rifjar hún upp.

Í skólanum eru um 90 nemendur og þar af 15 af pólsku bergi brotnir. Ania segir að starfið krefjist sveigjanleika, en hún kennir bæði samfélagsgreinar og íslensku, oftast í teymi með öðrum kennara.

Fjarnám og framtíðaráform


Sveigjanleikinn í íslenska háskólakerfinu gerði Aniu kleift að stunda námið heima á Djúpavogi. „Ég þurfti ekki að fara suður og gat haldið áfram að búa hér, sem hentaði fjölskyldunni minni fullkomlega,“ segir hún.

Ania er nú umsjónarkennari á miðstigi í skólanum en stefnir á að taka viðbótardiplóma í náttúrufræði. Hún segist elska starfið og að það hafi verið þess virði að leggja á sig námið.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.