Eiðar að vakna svo um munar
Austanlands er tiltölulega óalgengt að hægt sé að sækja tónleika með landsfrægu tónlistarfólki á mánu-, þriðju- og miðvikudögum. En í byrjun næstu viku verður það hægt í hátíðarsalnum að Eiðum.
Árið 2021 urðu eigendaskipti að Eiðum og nýir eigendur síðan þá verið önnum kafnir að koma staðnum á ný til vegs og virðingar eftir margra ára niðurníðslu. Liður í því að vekja athygli á þessum fornfræga stað á ný er að henda í alvöru skemmtun með topp tónlistarfólki. Það gerðu þeir fyrst í fyrra með góðum árangri og endurtaka leikinn nú strax eftir helgina.
Tónlistarfólkið ekki af verri endanum því þar um að ræða Eyþór Inga sjálfan sem treður upp á mánudagskvöld, Eyfi tekur við keflinu á þriðjudagskvöldinu áður en Emmsjé Gauti endar partíið með stæl á miðvikudagskvöld í sjálfum hátíðarsal staðarins.
Aðspurður segir Einar Ben Þorsteinsson, annar eigendanna, að svo vel hafi tekist til í fyrra þegar bryddað var fyrst upp á tónleikum snemma vikunnar að málið hafi algjörlega verið að endurtaka leikinn.
„Við höfum auðvitað verið önnur kafnir að lagfæra ýmislegt hér á staðnum og það gengið vel. Nú er gamli hátíðarsalurinn orðinn flottur á ný og þá er sjálfsagt að bjóða fólki að koma og upplifa góða tónlist og stemmningu. Við höfum verið að koma salnum til betri vegar enda eiga margir góðar minningar þaðan og nú verða flottir listamenn með tónleika þar svo fólk gefst kostur á að upplifa góða tónlist á stað sem fjölmargir þekkja vel.“
Aðspurður um hvernig gangi með lagfæringar á Eiðasvæðinu almennt segir Einar þær ganga vel. Það sé mikið verk að koma öllu í gott horf en hægt og bítandi sé allt að ganga upp.
„Þetta er töluvert mikil vinna enda í mjög mörg horn að líta hvað viðgerðir og endurbætur varðar. En þetta gengur vel þó margt sé enn eftir og vonandi er svona uppákoma eins og tónleikar snemma vikunnar eitthvað sem fólki hér finnst spennandi.“