„Einstök forréttindi að fá að standa fyrir altarinu á jólunum“
Lífið • This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. • Fyrst birt 30. des 2024 12:06 • Uppfært 30. des 2024 12:07
Séra Gunnlaugur Stefánsson leiddi á aðfangadagskvöld guðþjónustu á þeim tíma í 65. skipti á sínum prestsferli. Það gerði hann í Vopnafjarðarkirkju en Gunnlaugur þjónaði áður frá Heydölum í Breiðdal í rúm 30 ár.
„Mér finnst þetta algjör forréttindi að fá að vera fyrir altarinu um jólin. Sérhver messa er dásamleg en á jólunum finnur maður að fólk er í hátíðarskapi og skynjar eftirvæntinguna. Það ríkir einstök gleði og maður finnur fyrir fyrir því að vera umvafinn hinu heilaga. Það er bókstaflega þannig,“ segir séra Gunnlaugur.
Hann var prestur í Heydölum í 33 ár og þjónaði þá um leið Stöðvarfirði. Aðfangadagsmessurnar eru því orðnar 65 talsins. Reglan var að messað var bæði á Stöðvarfirði og í Breiðdal á aðfangadag en eitt ár féll niður þegar Gunnlaugur var í námi í Bandaríkjunum.
„Það var alltaf guðsþjónusta klukkan 18:00 á Stöðvarfirði og síðan náttsöngur í Heydalakirkju klukkan 23:00. Í öll þessi ár varð aldrei messufall vegna veðurs, þótt það hafi nokkrum sinnum staðið tæpt.“
Haldið jólamessur með fjölskyldunni í Hafnarfirði
Gunnlaugur lét af daglegum prestsstörfum haustið 2019. Hann hefur þó haldið sér við, meðal messað á jóladag í Víðistaðakirkju í Hafnarfirði. Sonur hans, Stefán Már Gunnlaugsson, hefur leitt þær messur sem héraðsprestur í Kjalarnessprófastsdæmi. Eiginkona Gunnlaugs og móðir Stefáns, séra Sjöfn Jóhannesdóttir, hefur einnig þjónað í þeim guðsþjónustu. „Það hefur komið fyrir að ég hef messað á jóladag síðan ég settist aftur að í Hafnarfirði og hef notið þess.“
Sjöfn var sjálf prestur á Djúpavogi um árabil. „Við erum vön að vera sitt í hvoru lagi á jólunum. Þegar við vorum fyrir austan sá hún um sínar sóknir á aðfangadag og ég um mínar. Við héldum síðan jólin hátíðleg þegar tækifæri gafst til milli jóla og nýárs.“
Stefán, sem var prestur á Vopnafirði í áratug, átti frumkvæðið að því að Gunnlaugur kæmi austur um jólin en millibilsástand ríkir í prestamálum á Vopnafirði um þessar mundir. „Hann hafði orð á því við mig að það væri ómögulegt að það yrði prestslaust á Vopnafirði um jólin þannig ég yrði að fara þangað til að sjá um helgihaldið. Ég geri það sem mér er sagt í fjölskyldunni.
Ég kom hingað um miðjan desember og hef haft það gott. Veðrið hefur verið fallegt, mannlífið dásamlegt og virkilega ánægjulegt að þjóna í kirkjunni.“
Sex athafnir á viku
Gunnlaugur hefur haft í nógu að snúast. Hann messaði á aðfangadag á Vopnafirði, í Hofskirkju á jóladag og leiddi þá líka stund í hjúkrunarheimilinu Sundabúð. Á annan í jólum messaði hann í Skeggjastaðakirkju í Bakkafirði auk þess sem hann flutti jólaguðspjallið á jólaballi kvenfélagsins Lindarinnar í félagsheimilinu Staðarholti. Eftir er messa í Hofskirkju klukkan 14:00 á nýársdag.
„Ég vil hafa nóg að gera. Það hefur verið vel mætt í guðþjónustur hér um hátíðirnar. Fólki þykir vænt um þennan sið að koma í kirkjuna sína á jólunum og jólaballið var líka fjölmennt,“ segir séra Gunnlaugur.
Fleiri breytingar eru í farvatninu í Hofssókn því þar hefur verið auglýst eftir organista frá og með 1. febrúar.
Nýr prestur í Egilsstaðaprestakalli um áramótin
Prestar, sem látið hafa af störfum, hafa víðar létt undir á Austurlandi um jólin. Vigfús Ingvar Ingvarsson lét formlega af störfum árið 2010 en hann síðan annað slagið aðstoðað á jólum. Hann hefur ekki síður en séra Gunnlaugur verið önnum kafinn, leiddi jólanæturguðþjónustu í Egilsstaðakirkju á aðfangadagskvöld og guðþjónustur í Þingmúlakirkju í Skriðdal á jóladag, Hjaltastaðakirkju í Hjaltastaðaþinghá á annan dag jóla og Valþjófsstaðarkirkju í Fljótsdal á sunnudag.
Um áramótin kemur formlega til starfa í Egilsstaðaprestakalli Jarþrúður Árnadóttir, sem tekur við af Kristínu Þórunni Tómasdóttur sem flutti sig í Skálholt í lok sumars. Jarþrúður hefur um hátíðarnar messa í Langanes- og Skinnastaðarprestakalli þar sem hún hefur verið prestur síðustu ár frá árinu 2019.