Einstök myndlistarsýning í Löngubúð

Bræður hennar, Ríkharður og Finnur, náðu báðir miklum frama í listheiminum en Anna Jónsdóttir Thorlacius gaf þeim lítt eftir í listsköpun sinni þó minna færi fyrir. Þvert á móti eru verk hennar af náttúru og landslagi úr ullarkembum nánast einstakt fyrirbæri.

Mörg þau verka geta áhugasamir barið augum í Löngubúð á Djúpavogi frá og með næsta sunnudegi en þá opnar formlega sýningin Ullarþræðir þar sem hennar listsköpun eru gerð góð skil en Anna, líkt og Ríkharður og Finnur, var fædd og uppalin að Strýtu í Hamarsfirði.

Náttúran og landslagið

Að sögn Kristjáns Ingimarssonar sótti Anna myndefni sitt fyrst og fremst í náttúru og landslag í kring og þrátt fyrir að brúka mjög óhefðbundið efni tókst henni listilega vel upp eins og glögglega má sjá á sýningunni.

„Sjálfur veit ég ekki ekki af neinum öðrum listamanni hérlendis sem notaði ullarkembur í list sína á þessum tíma. Ég man að hafa heyrt um eina konu annars staðar sem fiktaði eitthvað við þetta líka en það var töluvert síðar en Anna var að hér. Þessi verk hennar eru sannarlega einstök og hún leitaði fanga í hina og þessa áttina hvort sem það var litadýrð sumarsins, fossar eða stuðlaberg. Hún dregur listavel fram allt þetta íslenska; grámann, dulúðina, hrikaleikann og fegurðina. Það er mjög mikilvægt að hennar nafni sé haldið á lofti og hennar verk gleymist ekki og hverfi í aldanna skaut.“

Börn Önnu eru meðal þeirra sem hafa boðað komu sína á opnunina á sunnudaginn kemur en þar verður kynning á Önnu sjálfri og hennar lífshlaupi, söngvaskáldið Svavar Knútur býður okkur upp á tónlist og veitingar verða í boði. Ókeypis er á opnunarsýninguna og hún verður áfram uppi í Löngubúð út sumarið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.