„Eitt vaktavinnukerfi verður aldrei fullkomið fyrir alla“

Ágúst Ívar Vilhjálmsson hefur unnið hjá Alcoa Fjarðaáli í 17 ár og segist ekki vera að hugsa sér til hreyfings. Hann er þar í dag aðaltrúnaðarmaður og er nýkominn í stjórn AFLs Starfsgreinafélags. Myndavélakerfi og vaktafyrirkomulag eru meðal þess sem brenna helst á starfsfólki stærsta vinnustaðar Austurlands.

„Ég er fæddur í Reykjavík, alinn upp í Vesturbænum og svo Breiðholtinu. Um leið og ég fékk vit á því þá flutti ég í burtu. Um leið og ég fékk bílpróf þá fór ég með vinum mínum út á land nánast hverja helgi. Kannski vorum við komnir með nóg af að fara alltaf niður í miðbæ og hitta sama fólkið.

Ég man að einn morguninn var ég að læra undir próf og einn vinur minn hringdi í mig, spurði hvort ég vildi ekki koma í mat og ég var til í það. Við byrjuðum að keyra og vorum að ræða hvert við ættum að fara. Svo sagði annar okkar Pizza 67 á Akureyri þannig við brunuðum þangað, fengum okkur að borða og fórum svo til baka,“ segir Ágúst Ívar um uppvöxt sinn.

Ágúst Ívar var um tvítugt þegar hann flutti vestur á Ísafjörð um aldamótin. Hann hafði kynnst þaðan stúlku og vildi prófa að búa úti á landi. Hann vann fjölbreytt störf, bæði við fiskvinnslu og í lögreglunni. Hann var þar hjá smíðafyrirtæki sem fékk verkefni austur á Egilsstöðum á uppgangsárunum í kringum 2005. Hann er annar tveggja af sex manna hópi sem kom austur sem enn býr í fjórðungnum.

Launin og starfsöryggið


Smíðafyrirtækið varð gjaldþrota og Ágúst Ívar færði sig yfir í Húsasmiðjuna áður en hann réðist til Alcoa Fjarðaáls haustið 2007. Hann hefur starfað þar síðan. „Að ég nældi mér í dömu, sem síðar varð barnsmóðir mín, hafði sitt að segja um að ég ílengtist hér. Það fyndna er að hún var að vestan og býr nú á Flateyri með strákana okkar. Ég var þar áður mikið að vinna og hef farið reglulega til þeirra.

Það var félagi minn úr Húsasmiðjunni sem hafði ráðið sig í álverið sem hvatti mig til að sækja um, sagði að það væri gott að vera þar. Ég var samt alltaf á leiðinni í burtu og ætlaði bara að vinna þar í 1-2 ár til að safna pening.“

Ágúst segir ýmislegt eiga þátt í að hann hafi verið í álverinu í tæp 17 ár en nefnir sérstaklega vaktavinnuna. „Það er ekkert leyndarmál að á tímum bankahruns þá skiptu launin og starfsöryggið máli. Ég var líka bara búinn að vinna í álverinu í eitt ár þegar ég var gerður að leiðtoga. Það hefur líka verið gaman hjá okkur, félagarnir hafa sitt að segja. Ég kynntist konunni minni hér og hún réði sig líka til Alcoa.

Annars er ég vaktavinnukall, hef lifað og þrifist á vöktum. Það sem heillar mest við hana eru löngu fríin á milli vakta sem nýtast að gera hluti. Við ferðumst mikið, mitt fólk er fyrir sunnan og vestan og hennar erlendis. Við þurfum á þessum vaktafríum að halda til að geta sinnt því. Þetta nýttist líka vel meðan strákarnir mínir voru litlir, ég sá alfarið um þá þegar ég var í fríi.“

Leitin að hinu fullkomna vaktakerfi


Síðan Ágúst Ívar byrjaði að vinna í álverinu hafa verið gerðar nokkrar tilraunir með mismunandi vaktakerfi þar. „Vaktavinnukerfi geta verið fullkomin fyrir ákveðna einstaklinga en ég held að eitt vaktavinnukerfi verið aldrei fullkomið fyrir alla. Það er heldur ekki hægt að blanda kerfi til að vera með í gangi það sem hentar hverjum og einum. Það er spurning hvort stundum sé of mikil vinna lögð í að leita að rétta kerfinu. Við getum nefnt álverið í Straumsvík þar sem sama kerfið hefur verið í áratugi. Allir vita að hverju þeir ganga.“

Spurður út í hvert sé besta vaktakerfi sem hann hafi kynnst þá nefnir hann kerfi sem hann vann eftir á unglingsárunum, 12 tíma vaktir í viku og svo viku í frí sem fór að miklu leyti fór í gleðskap með vinunum. „Ég er ekki viss um ég þyldi 12 tíma vaktir í viku í dag,“ viðurkennir hann.

Hjá Alcoa hafi síðan verið um tíma kerfi með þar sem unnar voru sex vaktir á fimm dögum og síðan fimm dagar í frí. Síðan hafi því verið breytt, ýmis séu unnar sex vaktir á fimm dögum, sex vaktir á sex dögum sem geri fríin að ýmist fimm eða fjórum dögum. „Maður er alltaf að plana fram í tímann hvað eigi að gera í lengri fríum.“

Á móti þyki honum erfiðast í vera í kerfum þar sem sífellt sé verið að skipta um vaktir, til dæmis 2-3-2 kerfi. „Það var of mikið.“

Hann bendir þó á að hvort sem um er að ræða ungt fólk sem vill skemmta sér eða fjölskyldufólk sem vilji vera með fjölskyldunni séu helgarfríin lykilatriði vaktakerfanna. „Þorri fólks er í fríum um helgar þannig að til að halda tengslunum við það. Þess vegna skiptir máli að vita að ákveðnar helgar séu fríhelgar.“

Aðaltrúnaðarmaðurinn


Ágúst segist ekki hafa velt mikið fyrir sér verkalýðsbaráttu framan af, þótt hann hafi nýtt sér þjónustu sinna félaga. Hann hafi hins vegar farið að hugsa málin fyrir um fimm árum þegar hann hafði fengið nóg af því að vera leiðtogi og vildi færa sig aftur „á gólfið“ eins og hann orðar það. Hann hafi byrjað að ræða ákveðna hluti og síðan dregist inn í kjaraviðræður á sama tíma og stöður trúnaðarmanna í Alcoa Fjarðaáli voru að losna. Hann fékk brautargengi sem slíkur og þegar aðaltrúnaðarmaður álversins hætti skömmu síðar bauð Ágúst Ívar sig fram í það starf og var kjörinn.

Trúnaðarmenn eru milliliðir starfsfólks, verkalýðsfélaga og stjórnenda. Þeir njóta ákveðinna réttinda og skyldna sem slíkir, til að mynda gilda strangari reglur ef fyrirtæki hyggjast segja þeim upp. Fyrst og fremst eru þeir að uppfræða starfsfólk um réttindi og skyldur en þeir eru líka kallaðir til á erfiðum fundum starfsfólki til stuðnings, svo sem ef um er að ræða áminningar eða uppsagnir.

Titillinn aðaltrúnaðarmaður er aðeins á stærri vinnustöðum, þar sem margir trúnaðarmenn eru. Þannig er álverið einn fárra slíkra staða hér eystra með slíka stöðu. Trúnaðarmennirnir funda reglulega með mannauðsstjóra og stundum forstjóra þar sem farið er yfir þau málefni sem hæst ber. Framkvæmdastjórnin óskar líka stundum eftir aðstoð þeirra þegar koma þarf ákveðnum skilaboðum á framfæri.

En þrátt fyrir að sitja til borðs með framkvæmdastjórninni segir Ágúst að starfsfólkið sé alltaf í forgangi hjá trúnaðarmönnunum. „Við berum alltaf trúnað gagnvart fyrirtækinu og fáum upplýsingar um málefni sem við getum ekki rætt við hvern sem er en við munum alltaf að starfsmennirnir innan okkar verkalýðsfélags eru númer 1, 2 og 3 hjá okkur.“

Áhersla á rétta notkun myndavéla


Eitt af þeim atriðum sem hafa verið til umræðu að undanförnu, er notkun myndavéla í álverinu. Ágúst er fulltrúi starfsfólks Alcoa Fjarðaáls í Europe Work Council (EWC), ráði sem skipað er starfsmönnum Alcoa í Evrópu og ræðir við stjórnendur fyrirtækisins í álfunni. Hann segir að þar hafi fyrst verið rædd uppsetning véla á Spáni. Starfsfólk þar, með stuðningi EWC veitti stjórnendum aðhald til að tryggja að farið yrði eftir evrópskum persónuverndarreglum við innleiðinguna. Skömmu síðar var tilkynnt að einnig stæði til að setja upp vélar í álverinu á Reyðarfirði.

Ágúst Ívar segir að um myndavélarnar verði að vera skýrar reglur um hverjir hafi aðgang að efni úr þeim, hversu lengi það sé geymt og við hvaða kringumstæður það sé skoðað. Hann segist þó hafa skilning á að þær geti bætt öryggi á vinnustaðnum.

„Það er munur á hvort vélarnar hafa eftirlit með tækjum eða fólki þótt alltaf verði að gilda ákveðnar reglur. Það verður að setja búnaðinn upp á réttum forsendum og fylgja þeim lögum sem við á. Við erum með myndavélar sem vakta ákveðin tæki og það eru aðeins þeir sem vinna við þau, auk tölvustarfsmannanna, sem hafa aðgang að streymi úr þeim. Upptökur eru síðan bara geymdar 30 daga. Þær eru skoðaðar ef upp kemur öryggisatvik og það þarf samþykki starfsmanns til að nota þær, ef hann kemur fyrir í mynd.

Aukinn áhugi Íslendinga á Póllandi


Utan vinnunnar er fluguveiði helsta áhugamál Ágústs Ívars. Hann segist fagna því að geta gengið út á bakka Eskifjarðarár nánast á inniskónum. Hann hefur líka lengi haft áhuga á ljósmyndun og segist alltaf fá fiðring þegar hann sjái áhugaverðar myndavélar, þótt hann noti mest símann í dag.

Stór tími fer þó í ferðalög. Eiginkona Ágústs, Marta Kowalkowska, er pólsk og þau fara reglulega til hennar fjölskyldu í vaktafríum en einnig víðar. Flugsamgöngur hafa verið góðar milli Íslands og Póllands, fjöldi fólks af pólskum ættum hérlendis hefur búið til markað en að undanförnu hafa Íslendingar einnig kynnst kostum landsins.

„Þegar ég fór fyrst til Póllands fyrir átta árum þá var ég trúlega eini Íslendingurinn í vélinni. Í dag er konan mín eini Pólverjinn. Áhugi Íslendinga á Póllandi hefur aukist mikið. Ég get alveg verið hreinskilinn með að ég var ekki mjög spenntur fyrir landinu áður, hafði heyrt einhverjar sögusagnir, en ég fór að vinna með fólki þaðan og kynntist konunni minni.

Landið er fallegt og fólkið rosalega gott heim að sækja. Mér finnst ég fullt eins öruggur í miðborg Varsjár að kvöldi til og í Reykjavík.“

Ágúst veitir áhugasömum Póllandsförum það ráð að enskukunnáttan er mest í hjarta stórborganna: Ddansk, Krakár, Varsjár. Hún minnki í úthverfunum og hverfi nær alveg í dreifbýlinu. Sjálfur kveðst hann skilja samhengi tungumálsins og geta bjargað sér með nokkrum orðum, að minnsta kosti þannig hann fái það sem ætli sér á pizzastöðum.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.