Færeyingar hugsanlega þátttakendur í BRASinu á Austurlandi
Vel er hugsanlegt að færeyskir listamenn eða hópar verði hluti af þéttri dagskrá barna- og unglingamenningarhátíðarinnar BRASið á Austurlandi næsta vetur.
Verkefnastjóri BRASins, Halldóra Dröfn Hafþórsdóttir, staðfestir að viðræður eigi sér stað við menningarfulltrúa í Færeyjum eftir að áhugi á að taka þátt með einhverjum hætti varð ljós. Það yrði sannarlega lyftistöng fyrir BRAS ef kæmist á samvinna við Færeyinga og myndi færa nýja skemmtilega vídd inn í þessa einstöku hátíð.
„Það var að tilstuðlan Signýjar Ormarsdóttur sem í ljós kom að Færeyingar eru áhugasamir um samvinnu í þessu tilliti og það frábærar fréttir. Hugmyndin er að þeir sendi okkur innan tíðar lista með fólki sem hefði áhuga að koma hingað til taka þátt sem við veljum svo úr og sá listamaður eða hópur yrði svo hluti af hátíðinni okkar.“
Sjálf segir Halldóra að draumurinn sé að taka slíka samvinnu alla leið með því að hingað komi færeyskir listamenn til að taka þátt í BRASinu reglulega og á móti þá geti ungmenni af Austurlandi farið til Færeyja og tekið þátt í viðburðum sem þar fari fram.
„Það væri draumur ef það gengi eftir með einhvers konar slík menningarleg ungmennaskipti á milli þessara staða. Krakkarnir færu bara á milli með ferjunni og tengsl myndast milli þeirra og okkar öllum til heilla.“
Góður styrkur í húsi
Það fleira jákvætt í tengslum við BRASið en hugsanleg ungmennaskipti við Færeyjar. Nýlega fékk hátíðin fimm milljóna króna styrk við úthlutun úr Barnamenningarsjóði Íslands. Þema næstu hátíðar verður Uppspretta en þar hugmyndin að hvetja börnin og ungmennin til að horfa inn á við, virkja þannig sköpunarkraft sinn og skapað á sínum eigin forsendum.
Sem endranær fara BRAS-viðburðir að rúlla með haustinu og þegar er kominn góður vísir að metnaðarfullri dagskrá að sögn Halldóru.
Veggspjald BRASins í ár er hannað af Marc Alexander frá Fáskrúðsfirði en innblástur þess fékk hann vegna tíðra eldsumbrota á landinu upp á síðkastið.