Fáskrúðsfirðingar eiga Austurlandsmet í endurfundum

Bæjarhátíðinni Frönskum dögum á Fáskrúðsfirði verður þjófstartað í kvöld því eiginleg setning er ekki fyrr en annað kvöld. Framkvæmdastjóri hátíðarinnar segir Fáskrúðsfirðingum þykja afskaplega vænt um hátíðina sína og séu tilbúnir að leggja sitt af mörkum í hennar þágu.

Hátíðin hefst í kvöld með spurningakeppni sem þrír hressir Héraðsbúar undir merkjum „Deluxe“ standa fyrir.

Eiginleg setning verður annað kvöld, að þessu sinni í upphafi en ekki lok Kenderísgöngunnar. Farið verður frá skólanum í óvissugöngu um bæinn og áð á í hverfunum þar sem boðið er upp á veitingar. Annað kvöld verða einnig endurvaktir fimmtudagstónleikar hátíðarinnar þar sem söngvararnir Matti Matt og Stebbi Jak verða með rokkveislu.

Annar viðburður er fyrir setninguna, sýning leikhópsins Lottu. Rétt er að ítreka að sýningin er klukkan 15:00 en í einhverjum auglýsingum fór röng tímasetning, 15:30, út.

Halda í frönsku tengslin


Inn á Franska daga blandast síðan viðburðir með tengingu við Frakkland, sérstaklega vinabæinn Gravelines. Fulltrúar þaðan mæta austur og taka þátt í viðburðum auk þess sem sendiherra Frakklands á Íslandi kemur austur. Á föstudaginn kemur franskur sönghópur Les Itinérantes eða Ferðalangarnir fram í Fáskrúðsfjarðarkirkju. Hópurinn er skipaður þremur söngkonum sem er á ferð um Austurland. Þær eru í Djúpavogskirkju í kvöld og Vallaneskirkju annað kvöld.

„Með þeim fáum við enn eina tenginguna við Frakkland. Þær eru á ferð um landið og höfðu samband við okkur því þeim fannst nauðsynlegt að koma við,“ segir Daníel Geir Moritz, sem stýrt hefur Frönskum dögum frá árinu 2019.

Hverfin skreytt


Á föstudagskvöld er brenna, fjöldasöngur og flugeldasýning en á laugardag fjölbreytt dagskrá í miðbænum. „Okkur þykir gaman að geta boðið frítt á alla barnadagskrána og fleira til því við eigum frábæra bakhjarla,“ segir Daníel.

Í lok þeirrar dagskrár verða veitt verðlaun fyrir best skreytta húsið. „Að skreyta hverfin í ákveðnum litum var tískufyrirbrigði hjá flestum bæjarhátíðum. Á Fáskrúðsfirði hefur tekist að halda í þessa hefð. Íbúar eru mjög duglegir og metnaðarfullir, þeir safna í sarpinn eða búa til nýjar skreytingar milli ára.“

Fáskrúðsfirðingar eru stoltir af Frönskum dögum


Daníel býr sjálfur í Vestmannaeyjum, er uppalinn Norðfirðingur en er ættaður frá Fáskrúðsfiðri og kemur austur til að stýra hátíðinni á hverju sumri. Taugarnar toga alltaf í hann og hann segir mikla samheldni að baki bæjarhátíðinni.

„Fáskrúðsfirðingar eru mjög jákvæðir fyrir Frönskum dögum og þykir vænt um þá. Hér er alltaf auðvelt að fá sjálfboðaliða til að taka að sér ákveðin verkefni og um leið verður til hátíð sem teygir anga sína í margar fjölskyldur.

Síðan eru margir brottfluttir sem snúa til síns heima. Ég held að Fáskrúðsfirðingar eigi Austurlandsmet í endurfundum. Nándin og spjallið er það sem mér finnst mest heillandi við hátíðina.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.