Ferðalangar senda þakkir til hjálpsams Djúpavogsbúa

Eldri hjón frá Bandaríkjunum vilja koma á framfæri þökkum til íbúa á Djúpavogi fyrir einskæra hjálpsemi í heimsókn þeirra þangað fyrir skemmstu. Íbúinn fann fyrir þau glataðan farsíma en án hans hefði ferð hjónanna orðið töluvert snúnari.

„Þann 19. ágúst síðastliðinn gengum ég og konan mín að fuglaskoðunarhúsi og út að sjó á mjóum vegi nærri þorpinu. Á leiðinni til baka áttaði ég mig á að ég hafði týnt farsímanum mínum einhvers staðar á leiðinni.“

Þannig hefst frásögn James Ellmann af raunum hans og konu hans, Olu, á Djúpavogi nýverið. James hafði samband við Austurfrétt í gær með ósk um að koma á framfæri einlægum þökkum fyrir dýrmæta hjálp.

„Ég hljóp til baka og leitaði ákaft að símanum á veginum. Ég var um 1000 metrum á undan konunni minni þegar hún sá bíl koma á móti sér. Hún veifaði og bíllinn stoppaði.

Hún sagði ökumanninum að hún hefði týnt farsímanum og spurði hann hvort hann hefði séð eitthvað á veginum sem líktist síma. Hann svaraði neitandi, en sagðist ætla að fara til baka og leita.

Hann keyrði að fuglaskoðunarhúsinu og fann símann minn liggjandi á jörðinni, þar nærri. Þegar hann keyrði í áttina að mér aftur sá ég að hann veifaði einhverju og í gegnum framrúðuna gat ég greint að hann hafði fundið símann.

Ég trúði ekki því sem ég sá – maðurinn hafði fundið símann minn. Þetta var eins og að finna nál í heystakki. Þessi góðhjartaði maður gaf okkur svo far inn í bæ,“ segir James.

Hann segir fundinn hafa skipt hjónin miklu máli. „Við erum á níræðisaldri og það hefði getað verið mjög vandasamt að vera án farsímans í erlendu landi. Okkur lá svo mikið á að komast aftur í hópinn okkar að mér láðist að fá nafn eða heimilisfang mannsins,“ segir James að lokum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.