Fín aðsókn að minnstu pólsku kvikmyndahátíð heims í Fjarðabyggð

Nýlokið er pólskri kvikmyndahátíð sem haldin hefur verið í Fjarðabyggð um fjögurra ára skeið og reyndist aðsóknin mun betri en fyrir ári og reyndar ekki verið betri frá upphafsári hátíðarinnar. Skipulagning fimmtu hátíðarinnar er í undirbúningi.

Það staðfestir Jóhann Ágúst Jóhannsson, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar, sem lagt hefur hátíðinni lið frá upphafi en hún er einn liður í að bjóða fjölmörgum erlendum íbúum fjórðungsins upp á gott menningarefni ekkert síður en Íslendingum sjálfum.

Það kostar samvinnu margra aðila að koma þessari minnstu pólsku kvikmyndahátíð heims á koppinn ár hvert en auk Menningarstofunnar leggjast þar á eitt Sendiráð Póllands á Íslandi, Valhöll Eskifirði og Bíó Paradís auk Fjarðabyggðar sjálfrar. Fyrir hönd Fjarðabyggðar hafði Rafał Koczanowicz veg og vanda af hátíðinni nú.

„Vel yfir 80 gestir sóttu sýningarnar að þessu sinni sem er góð aukning frá síðastu hátíð en frítt er inn á allar sýningar meðan á hátíðinni stendur. Auðvitað væri gaman að fá enn fleiri en þarna er auðvitað ekki endilega verið að sýna vinsælustu eða vinsælar kvikmyndir heldur breitt snið pólskra mynda  fyrir mismunandi aldurshópa.“

Þema hátíðarinnar nú snérist um árstíðaskipti og aðalmynd hennar kvikmyndin Peasants eftir Nóbelsverðlaunahafann Wladyslaw Reymont en sú vakið mikla athygli fyrir þær sakir að hver rammi kvikmyndarinnar er handmálaður.

Hátíðin mun áfram verða fastur árlegur liður í menningarstarfinu í Fjarðabyggð og er undirbúningur fyrir fimmtu hátíðina að ári að hefjast.

Skjáskot úr kvikmyndinni Peasants en sýning hennar var vel sótt á kvikmyndahátíðinni sem nú er lokið.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.