Fín skráning í fyrsta Snæfellshlaupið
Þann 20. júlí næstkomandi fer fram fyrsta sinni svokallað Snæfellshlaup sem er utanvegahlaup umhverfis þetta hæsta fjall Íslands utan jökla. Skráning gengur mjög vel að sögn skipuleggjanda.
Hugmyndin að Snæfellshlaupi kviknaði fyrir rúmu ári síðan og síðan þá hefur verið unnið að undirbúningnum segir Ingimar Jóhannsson sem er einn þeirra sem komið hafa þessu utanvegahlaupi á koppinn.
Um tvær hlaupaleiðir verður um að velja; annars vegar 10 kílómetra hlaup með 450 metra hækkun og hins vegar 30 kílómetra leið kringum fjallið á stikuðum göngustíg sem þar er til staðar. Þar er hækkunin öllu meiri eða 870 metrar og því töluvert krefjandi fyrir utanvegahlaupara.
„Það var upphaflega félagi minn Gísli Björn sem datt þetta í hug í fyrra og spurði hvort við ættum ekki að prófa að sækja um í samfélagssjóð Fljótsdalshrepps sem og við gerðum. Þar fengum við svo ágætan styrk og höfum síðan verið að vinna að því að gera þetta að veruleika. Við hófum skipulagningu síðasta sumar og skoðuðum aðstæður og hugsanlegar leiðir. Úr varð að velja þessar tvær leiðir sem í boði eru nú.“
Ingimar segir að þeir félagar hafi vissulega íhugað að hlaupið yrði upp Snæfell og niður sem væri vissulega stórkostleg hlaupaleið.
„En við mátum það svo eftir meira samráð að það væri of flókið í framkvæmd. Aðallega vegna öryggissjónarmiða því ef einhver slasar sig ofarlega í fjallinu til dæmis þá væri tímafrekt og flókið að koma fólki til hjálpar. Þess utan væri slíkt hlaup það erfitt sökum mikillar hækkunar að það væri eingöngu á færi þeirra allra bestu.“
Hátt í 40 hafa þegar skráð sig í hlaupið sem Ingimar er ánægður með enda hafi verið lagt upp með að fjöldinn yrði ekki mikið meiri en 50 í þetta fyrsta skipti sem þetta fer fram. Hægt verður að skrá sig til leiks á vef East.is fram til 16. júlí.
Drottning austfirskra fjalla er ekki amaleg staðsetning fyrir utanvegahlaup en að þessu sinni skal hlaupið kringum fjallið. Mynd East.is