Fjallkonan snýr heim

Minjasafn Austurlands, Héraðsskjalasafn Austurlands og Tækniminjasafn Austurlands hafa í sumar öll verið með sýningar um austfirskar konur. Á Minjasafninu eru í fyrsta sinn á Austurlandi sýndir mundir sem fundust við rannsóknina á munum fjallkonunnar sem fannst við Vestdalsvatn sumarið 2004.

Söfnin eru hvert með sína sýninguna. Tækniminjasafnið er með útisýningu á Lónsleiru þar sem dregin er upp mynd af störfum kvenna á Seyðisfirði um aldamótin 1900. Héraðsskjalasafnið fjallar um sögu Margrétar Sigfúsdóttur, verkakonu, kennara og skálds í Fljótsdal í byrjun 20. aldar.

Landnámskonan er í brennidepli sýningar Minjasafnsins. Sagan er unnin í samvinnu við Þjóðminjasafnið og Antikva, sem sér um fornleifarannsóknina að Firði á Seyðisfirði. Gripir eru fengnir frá báðum stöðum og sagan sögð í gegnum annars vegar fornleifarannsóknina, hins vegar fjallkonuna sem fannst við Vestdalsvatn.

Úr hennar fórum eru til sýnis tvær brjóstnælur, þríblaðanæla og hringprjónn, munir sem ekki hafa verið sýndir opinberlega áður. „Þetta er því stór viðburður og við getum sagt að fjallkonan sé komin heim.“

Frá Firði eru taflmenn úr hnefatafli og perlur en þær eru einkennandi fyrir Austurland þar sem um helmingur þeirra perlna sem fundist hafa hérlendis hafa komið fram í Firði, hjá fjallkonunni og í uppgreftrinum að Stöð í Stöðvarfirði.

Eins eru á sýningunni munir sem fundist hafa í því rými Fjarðar sem talinn er hafa verið vefstofa. Þetta allt saman nýtist við að draga upp mynd af lífi landnámskonunnar. „Spuni og vefnaður voru gríðarlega mikilvæg, til dæmis þegar kom að siglingum. Í 85 fermetra segl þurfti ull af 2000 sauðum og það tók fjórar konur þrjú ár að vefa slíkt segl,“ útskýrir Elsa Guðný.

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.