Fjarðabyggð og Krabbameinsfélag Austfjarða semja um samstarf
Fjarðabyggð og Krabbameinsfélag Austfjarða undirrituðu í dag nýjan þriggja ára samning um samstarf og vinnu við lífsstílstengdar forvarnir og fræðslu í sveitarfélaginu. Samningurinn felur í sér að sveitarfélagið styrkir félagið um 1,5 milljónir króna á næstu þremur árum.„Það er ómissandi þáttur fyrir samfélag eins og Fjarðabyggð að hafa félag eins og Krabbameinsfélag Austfjarða, sem getur boðið uppá ráðgjöf og aðstoð fyrir krabbameinsveika einstaklinga og aðstandendur þeirra og miðlað af þekkingu sinni í heilsutengdum forvörnum“ sagði Jóna Árný Þórðardóttir, bæjarstjóri, sem undirritaði samninginn fyrir hönd Fjarðabyggðar.
„Við erum gríðarlega ánægð með endurnýjun samningsins sem er mjög mikilvægur fyrir félagið, að hafa skjalfestan stuðning og bakland í sveitarfélaginu. En það sem er ekki síður frábært við samninginn er þessi samvinna sem hann felur í sér varðandi heilsutengdar forvarnir í sveitarfélaginu sem við þurfum að leggja meiri áherslu á.
Við hlökkum mikið til samstarfsins sem verður mikilvægt fyrir sveitarfélagið, Krabbameinsfélagið og íbúa sveitarfélagsins,“ segir Hrefna Eyþórsdóttir, formaður Krabbameinsfélags Austfjarða.
Í tilkynningu Fjarðabyggðar og Krabbameinsfélags Austfjarða eru heilsutengdar forvarnir sagðar mikilvægur hluti af lífi hvers einstaklings því þær bæti lífsgæði auk þess að draga úr líkum á eða seinka lífstílstengdum veikindum. Í dag er talið að þriðji hver Íslendingur fái krabbamein einhvern tíma á ævinni. Með heilbrigðum lífsstíl er talið að hægt sé að koma í veg fyrir fjögur af hverjum tíu krabbameinstilfellum.
Samningurinn var undirritaður í morgun í tilefni af upphafi bleiks október, vitundarátaks um krabbamein kvenna. Krabbameinsfélagið verður í mánuðinum með fræðslu fyrir starfsfólk um aðstæður aðstandenda.
Af öðrum verkefnum má nefna að félagið hefur síðustu ár sent sólarvarnir á alla leikskóla í Fjarðabyggð, ásamt fræðsluefni til foreldra. Efnið hefur verið á íslensku, pólsku og ensku og í ár var að auki hengd upp fræðsla um sólarvarnir í fatarými barna á þessum tungumálum.
Starfsfólk Fjarðabyggðar líkt og aðrir geta leitað til félagsins varðandi stuðning, ráðgjöf og fræðslu vegna krabbameinsveikinda.