Fjögur þúsund kökusneiðar seldar í sumar

Um 4.000 kökusneiðar hafa verið seldar á Hafið bistro á Djúpavogi í sumar. Á bakvið kökurnar stendur Milena Anna Gutowska sem segir það mikla ánægju að fá að vinna við áhugamálið.

„Ég varð hissa á tölunni þegar við tókum hana saman núna í lok júlí,“ segir Milena. Fyrir um viku höfðu verið seldar 3.721 kökusneið á Hafinu, sem opnaði í stað Við Vogsins, í vor.

„Við seljum að jafnaði 70 sneiðar á dag, en höfum farið upp í 88. Í hverri köku eru 10-12 sneiðar,“ segir Birkir Helgason, nýr eigandi staðarins.

Birkir og Milena unnu um árabil saman í mötuneyti Búlandstinds. Þegar hún óskaði eftir vinnu í sumar var vel tekið í það. „Ég ætlaði mér fyrst að vera í eldhúsinu því ég lærði í matreiðsluskóla í Póllandi. En mér var gefið tækifæri í kökunum. Ég er mjög ánægð með það. Þetta er auðvelt starf því kökubakstur er áhugamálið mitt,“ segir hún.

Stærsta hrósið þegar Íslendingar vilja uppskriftina að hjónabandssælunni


Milena hefur búið á Íslandi í tæp 14 ár, allan tímann á Djúpavogi. Hún segir dálítinn mun á kökumenningu Íslendinga og Pólverja. Íslendingar séu gjarnir á að nota rækilega af sykri meðan pólsku uppskriftirnar innihaldi meira af smjöri.

„Íslendingar vilja sínar hefðbundnu kökur. Ég hef aldrei verið í vandræðum með osta- eða eplakökur því þær eru þær sömu og í Póllandi en ég var lengi hrædd við að baka hjónabandssælu eða marensköku. Marenskaka er samt uppáhaldið mitt og um tíma bakaði ég þær heima í hverri viku.

Þess vegna er það mesta hrós sem ég get fengið þegar Íslendingar biðja mig um uppskriftina að þessum kökum. Fyrir tveimur vikum kom hingað íslensk kona og spurði hvað ég gerði við hjónabandssæluna því hún hefði aldrei smakkað jafn góða. Mér fannst vanalega uppskriftin of sæt þannig ég gerði smá breytingar sem virðast hafa gengið upp.“

Milena segist fá innblástur að nýjum uppskriftum frá Póllandi. „Ég skoða uppskriftir á vefsíðum og hvað er í gangi í Facebook-hópum.“

Að jafnaði eru 12-16 sortir í boði á Hafinu. Þar á meðal er nokkurt úrval af glútenfríum kökum. „Það er ekki mikið að breyta uppskriftunum er hugað er að því í tíma. Fólk er mjög þakklátt fyrir þennan möguleika því hann er víða ekki í boði.“

Það er líka reglulega skipt út kökum. „Við vorum með nutella brownie en hættum með hana og erum núna með skyr brownie sem er algjörlega mögnuð!“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.