Fjórða Matarmót Austurlands fer fram á nýjum stað

Á morgun hefst fjórða Matarmót Austurlands og sem fyrr fer það fram á Egilsstöðum en nú á nýjum stað því aðsókn hefur aukist það mikið að Valaskjálf, þar sem mótið hefur verið haldið frá upphafi, var orðið of lítið til að allir kæmust að.

Sýnir sú staðreynd ágætlega þá miklu grósku sem á sér stað í fjórðungnum í hvers kyns framleiðslu en alls eru 30 matvælaframleiðendur og aðrir sem vinna vörur úr austfirsku hráefni sem sýna sitt og selja á morgun.

Að forminu til hefst mótið í fyrramálið en þemað að þessu sinni er Landsins gæði - austfirsk hráefni. Fyrri hlutinn ætlaður framleiðendum og söluaðilum til að koma á tengslum og kynna vörur fyrir verslunum og heildsölum. Síðari hlutinn eftir hádegi er svo, líkt og í fyrra, opinn almenningi frá klukkan 14. Þar gefst matgæðingum frábært tækifæri til að prófa nýjungar í matvöruframleiðslu á Austurlandi og jafnvel kaupa góðgætið ef svo ber undir.

Allt fer þetta fram í menningarmiðstöðinni Sláturhúsinu og þátttakendafjöldinn svo mikill að allt húsið er tekið undir að sögn Halldóra Drafnar Hafþórsdóttur, skipuleggjanda mótsins.

Þar vinna margar hendur létt verk að gera klárt fyrir morgundaginn en fyrir utan kynningar framleiðsluaðila verða allnokkrir þekktir einstaklingar með erindi. Þar á meðal Michelin-kokkurinn Þráinn Freyr Vigfússon, Michael Miv Pedersen, matreiðslumaður ársins í Danmörku 2013 og lærisveinn hans, heimamaðurinn Sigrún Sól Agnarsdóttir. Svo ekki sé minnst á Snædísi Jónsdóttur, þjálfara íslenska kokkalandsliðsins og Ægir Friðriksson kennara í Hótel- og matvælaskólanum en Ægir er uppalinn í Fellabæ. Þá verða og á svæðinu nokkrir fulltrúar frá Færeyjum að kynna sér dásemdir Austurlands.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.